Ólympíuskákmótið hefst í Búdapest í Ungverjalandi í dag og stendur til 22. september. Ísland sendir venju samkvæmt tvö lið til leiks, annars vegar í opnum flokki og hins vegar í kvennaflokki.
Umferð dagsins hefst kl. 13 í dag en allar upplýsingar um hvernig best sé að fylgjast með mótinu er að finna á skak.is.
Lið Íslands í opnum flokki skipa fjórir stórmeistarar og einn alþjóðlegur meistari.
Vignir Vatnar Stefánsson, sem keppir nú á sínu fyrsta Ólympíumóti, teflir á fyrsta borði en með honum skipa liðið Guðmundur Kjartansson, Hannes Hlífar Stefánsson, Hilmir Freyr Heimisson, og Helgi Áss Grétarsson.
Liðsstjóri er stórmeistarinn Helgi Ólafsson.
Liðið er það 46. sterkasta á meðalstigum af 197 liðum sem keppa í flokknum en Ísland mætir sveit Miðbaugs-Gíneu í fyrstu umferð.
Í kvennaflokki er stórmeistari kvenna, Lenka Ptácníková, á fyrsta borði en auk hennar skipa liðið Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Iðunn Helgadóttir og Guðrún Fanney Briem.
Liðsstjóri er FIDE-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson.
Iðunn sem er 16 ára og Guðrún sem er 14 ára eru nýliðar á mótinu en Guðrún er yngsti landsliðsmaður Íslands í skáksögunni.
Lið Íslands er það 72. sterkasta á meðalstigum af 183 liðum en það mun tefla við sveit Bresku Jómfrúareyjanna í fyrstu umferð