Ríkisstjórn Íslands hefur verið kærulaus og sjálfumglöð, misst alla stjórn á efnahagsmálum og kennt öllum öðrum um en sjálfri sér. Aftur á móti mun Samfylkingin, undir stjórn Kristrúnar Frostadóttur, aldrei verða kærulaus og sjálfumglöð.
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir í ræðu sinni á Alþingi í kvöld að lokinni stefnuræðu forsætisráðherra.
Hún sagði að búið væri að breyta Samfylkingunni meðal annars „með því að hvíla klofningsmálin en taka þess í stað opið samtal við fólkið í landinu um hvað það er sem þorri þjóðar getur sameinast um“.
„Hæstvirt ríkisstjórn var kærulaus – og þess vegna misstu þau alla stjórn. Þau misstu stjórn á efnahagsmálunum, fyrir löngu, en í stað þess að bregðast við ákalli um aðgerðir, þá hlupust þau undan ábyrgð og bentu á alla aðra: Seðlabanka, verkalýðshreyfingu og nú síðast erfðamengi Íslendinga.
Það var kæruleysi og sjálfumgleði. Ríkisstjórnin tók ábyrgð sína ekki alvarlega. Þau tömdu sér þann ósið að ýkja stórkostlega og blása upp allar sínar aðgerðir – þegar þau hefðu mátt tala minna og gera meira,“ sagði Kristrún.
Hún sagði að Samfylkingin hefði ítrekað bent á það að þegar ríkisstjórnin gerir minna til að ná niður verðbólgu – þá þurfi Seðlabankinn að gera meira. Það þýði að vextir verði hærri og skuldabyrðin þyngri.
„Þáverandi fjármálaráðherra hæstvirtur – sem nú leiðir ríkisstjórn – brást við með því að láta þau ótrúlegu ummæli falla að það væri nú, með leyfi forseta, „ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni“,“ sagði Kristrún.
Hún sagði að Samfylkingin hefði gagnrýnt þegar halli á ríkissjóði var aukinn í fjárlagavinnu haustið 2022, þegar ófjármagnaðar aðgerðir vegna kjarasamninga voru samþykktar og þegar aðgerðir vegna Grindavíkur voru ekki fjármagnaðar né gripið til aðgerða á húsnæðismarkaði.
„Við kölluðum eftir því að tekið yrði á þenslunni þar sem hún raunverulega er, en þá vorum við skömmuð fyrir að ræða skatta. En ég spyr: Hvað er verðbólgu- og vaxtastefna ríkisstjórnarinnar – þessi blessaða efnahagsstefna – annað en tugmilljarða skattahækkun á ungt fólk? Og allt fólk sem skuldar – fjölskyldur, fyrirtæki, bændur – með afleiðingum sem allir þekkja,“ sagði Kristrún.
Hún sagði að sama fólkið og hefði látið kjósa sig til valda fyrir þremur árum út á loforð um efnahagslegan stöðugleika hefði í raun valdið himinhárri verðbólgu og vöxtum.
„Kæruleysið, aðgerðaleysið og ábyrgðarleysið er óafsakanlegt. En nú koma þessir sömu stjórnmálamenn og segja: „Þetta er allt að koma.“ Eftir öll þessi ár. Og hæstvirtur forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi, með leyfi forseta, „stutt ötullega við hjöðnun verðbólgunnar“.
Hún sagði að nú færi senn að líða að kosningum og að þá gæfist kjósendum tækifæri til þess að breyta um stefnu.
„Vill fólk fjögur ár í viðbót – meira af því sama – með sama fólk í forystu? Eða fáum við nýtt upphaf með Samfylkingu – nýja forystu fyrir Ísland? Það er fólkið sem leiðir landið og velur leiðina áfram,“ sagði hún.
Hún sagði að Samfylkingin liti á það sem siðferðislega skyldu sína að bjóða upp á betri valkost en sitjandi ríkisstjórn.
„Þess vegna hefur Samfylkingin hrist upp í stjórnmálunum. Við byrjuðum á sjálfum okkur, með því að líta í eigin barm. Við breyttum flokknum. Við breyttum Samfylkingunni og breikkuðum faðminn.“
Hún sagði Samfylkinguna ekki lofa öllum, öllu, alls staðar og haldi ekki á lofti öllum ítrustu kröfum í hverjum einasta málaflokki. Það þýði þó ekki að flokkurinn ætli ekki að vinna stóra sigra fyrir íslenskt samfélag.
„Þvert á móti: Samfylkingin vill sameina þjóðina um stórhuga stjórnmál – á ný. Til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og styrkja aftur undirstöður samfélagsins. Og til að framkvæma það sem þorri þjóðarinnar getur þrátt fyrir allt sameinast um, með því að knýja fram breytingar í veigamestu málaflokkum – sem hinn almenni maður finnur fyrir í sínu daglegu lífi,“ sagði hún.
Hún sagði Samfylkinguna hafa markað skýrar pólitískar línur í hinum ýmsu málum með skipulagðri vinnu um land allt.
„Allt samkvæmt áætlun. Örugg skref en engin heljarstökk. Samfylkingin hefur nú staðsett sig þétt með þjóðinni, á hárréttum stað, við bak hins vinnandi manns – tilbúin til þjónustu, fáum við til þess traust eftir næstu kosningar,“ sagði hún.
„Undir minni stjórn verður Samfylkingin aldrei sjálfumglöð. Hún verður aldrei kærulaus. Við verðum hreinskilin og tökum engu sem gefnu. Við höfum staðið í stífum undirbúningi og fengið til liðs við okkur fjölda fólks um land allt.
En þegar upp er staðið þá verður það þjóðarinnar að velja leiðina áfram í næstu kosningum. Þangað til vona ég að sitjandi ríkisstjórn sem nú situr hér sem fastast grípi þó að minnsta kosti til aðgerða, axli ábyrgð sína og starfi af fullum metnaði í þágu lands og þjóðar.“