Fleiri aðgerðir og aukið fjármagn

Árangur af aðgerðunum verður metinn reglulega.
Árangur af aðgerðunum verður metinn reglulega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnvöld hafa ákveðið að fjölga aðgerðum vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum og auka fjármagn til aðgerðanna. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi í gær. 

Með aðgerðunum er ætlunin að sporna við þróun í átt að auknu ofbeldi, auka forvarnarstarf og leiða saman fjölbreytta þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi, segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Alvarlegt ofbeldi sem átt hafi sér stað á síðustu misserum undirstriki þörfina á samstilltu átaki til að bregðast við þróuninni af festu.

Fjölgað úr 14 í 25

Hluti aðgerðanna var kynntur á blaðamannafundi í júní, en aðgerðum hefur verið fjölgað úr 14 í 25.

Snúa þær m.a. að eflingu meðferðarúrræða, samfélagslögreglu og vettvangsstarfs Flotans, auk eflingar þjónustu við börn í öllum sveitarfélögum á grundvelli farsældarlaga. Löggæsla verði sýnilegri og eftirfylgni vegna brota barna og ungmenna aukin.

Komið verði á fót skimun fyrir ofbeldi í grunnskólum landsins og úrræði til að vinna með öll ofbeldismál barna. Þá verði undirbúið samfélagsátak í virku samtali við börn og ungmenni, foreldra og aðila sem hafa aðkomu að málefnum barna.

Árangur af aðgerðum metinn reglulega

Aðgerðahópur sem muni sjá um að forgangsraða aðgerðum og hrinda þeim í framkvæmd hefur þegar tekið til starfa. Árangur af aðgerðum verði metinn reglulega og þær aðlagaðar eftir þörfum.

Mikil samvinna hafi átt sér stað þvert á ráðuneyti og aðila sem starfa að málefnum barna við að kortleggja birtingarmyndir ofbeldis gagnvart og meðal barna og ungmenna. Aðgerðirnar byggi á þeirri vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert