Framkvæmdaleyfi fyrir vindorkuver samþykkt

Rangárþing ytra hefur gefið út framkvæmdaleyfi vegna vindorkuvers við Vaðöldu. …
Rangárþing ytra hefur gefið út framkvæmdaleyfi vegna vindorkuvers við Vaðöldu. Sveitarstjórn nágrannasveitarfélagsins Skeiða- og Gnúpverjahrepps íhugar að kæra virkjanaleyfið. mbl.is/Sigurður Bogi

Framkvæmdaleyfi til handa Landsvirkjunar vegna vindorkuvers við Vaðöldu, sem gengið hefur undir nafninu Búrfellslundur, var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings ytra í dag.

Um er að ræða leyfi vegna vegagerðar innan framkvæmdasvæðis annars vegar og leyfi til uppsetningar vinnubúða hins vegar. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Landsvirkjun. Orkustofnun veitti í síðasta mánuði virkjanaleyfi vegna vindorkuversins.

Vindmyllur valdar í næsta mánuði

„Sveitarstjórnin tók framkvæmdaleyfisumsókn Landsvirkjunar fyrir á fundinum og fól skipulags- og umferðarnefnd, ásamt umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd Rangárþings ytra, að vinna áfram að afgreiðslu umsóknarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að útboðsferli meðal vindmylluframleiðenda sé nú á lokametrunum og að gert sé ráð fyrir því að í október verði ljóst hvaða vindmylluframleiðandi verði fyrir valinu.

Nágrannasveitarfélagið ætlar að kæra

Ekki eru þó allir á eitt sáttir við fyrirhugaðar framkvæmdir. Þannig ákvað sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrr í þessum mánuði að odd­vita í sam­ráði við lög­menn sveit­ar­fé­lags­ins að kæra virkj­un­ar­leyfi sem Orku­stofn­un hef­ur gefið út fyr­ir vindorku­verið Búr­fells­lund til úr­sk­urðar­nefnd­ar um­hverf­is- og auðlinda­mála.

Í fundargerð sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps kemur fram að Landsvirkjun hafi ekki talið sig þurfa að sækja um breytingar á skipulagi hreppsins vegna Búrfellslundar, þar sem vindmyllurnar verði staðsettar í Rangárþingi ytra.

Vindorkuver á sveitarfélagamörkum

„Þrátt fyr­ir það kem­ur skýrt fram, bæði í um­hverf­is­mat­inu sem unnið var í hönn­un­ar­ferli vindorku­vers­ins og í áliti Skipu­lags­stofn­un­ar að fram­kvæmda­svæðið sé bæði í Rangárþingi Ytra og í Skeiða- og Gnúp­verja­hreppi. Ljóst er að Búr­fells­lund­ur tak­mark­ar land­nýt­ingu í Skeiða- og Gnúp­verja­hreppi, vegna ná­lægðar við sveit­ar­fé­lagið,“ seg­ir í fund­ar­gerðinni. 

„Sú staðreynd sem uppi er, að sveit­ar­fé­lög geti sett í skipu­lag sitt vindorku­ver á sveit­ar­fé­laga­mörk­um sín­um án sam­ráðs við aðliggj­andi sveit­ar­fé­lög er aðför að skipu­lags­valdi þeirra og tak­mark­ar land­notk­un á því svæði sem næst eru vindorku­ver­un­um. Slík vinnu­brögð eru óá­sætt­an­leg og gríðarlega hættu­legt for­dæmi í kom­andi upp­bygg­ingu vindorku­vera á Íslandi,“ seg­ir jafnframt í fund­ar­gerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert