Hvetur fólk til að kveikja á kertum fyrir Bryndísi

Allur ágóði mun renna í Minningarsjóð Bryndísar Klöru.
Allur ágóði mun renna í Minningarsjóð Bryndísar Klöru. Ljósmynd/Aðsend

Anna Björt Sigurðardóttir hvetur landsmenn til að kveikja á friðarkerti við heimili sín á föstudag til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur.

Bryndís Klara lést af áverkum sínum á Landspítala 30. ágúst. Hún verður jarðsungin á föstudaginn.

„Ég einfaldlega upplifi mikinn vanmátt og gríðarlega sorg yfir því á hvaða stað við erum komin sem samfélag. Þess vegna vildi ég gera eitthvað til þess að hjálpa þótt ég viti, að ekkert í heiminum mun bæta þá sorg sem fjölskylda og nánustu aðstandendur þessarar ungu stúlku standa frammi fyrir,“ er haft eftir Önnu í tilkynningu.

Ágóðinn rennur í minningarsjóð

Anna Björt hafði samband við verslanirnar Krónuna, Bónus, Nettó, Hagkaup og Kjörbúðina í vikunni og óskaði eftir aðstoð þeirra við að minnast Bryndísar Klöru með því að hefja sölu á friðarkertum í aðdraganda jarðarfarar Bryndísar.

Lagði hún jafnframt til að allur ágóði af sölu kertanna rynni óskiptur í Minningarsjóð Bryndísar sem ætlað er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.

Allar verslanirnar tóku vel í frumkvæði Önnu Bjartar og verða friðarkerti til sölu í verslunum Krónunnar, Bónuss, Nettó, Hagkaups og Kjörbúðarinnar þar sem ágóðinn rennur beint í minningarsjóðinn.

Fólki er einnig frjálst að kveikja á eigin kertum til að taka þátt í þessari minningarathöfn landsmanna.

Þeir sem eru aflögufærir geta millifært beint inn á reikning minningarsjóðsins, 0515-14-171717, kennitala 430924-0600.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert