Miklu meira en bara hagvöxtur og hagkvæmur rekstur

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, gerði skautun, einstaklingshyggju, fordóma og samfélagsleg áföll að umræðuefni í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Hún sagði að stjórnmál þyrftu að fjalla um réttlæti, sanngjarna skiptingu gæða og almannaheill.

Halldóra sagði að samfélagið stæði á krossgötum, að hvert áfallið á fætur öðru hefði dunið á og að stundum mætti halda að hörmungum ætli aldrei að linna. Nefndi hún þar heimsfaraldur og eldsumbrot á Reykjanesskaga en einnig innrás Rússa í Úkraínu og „þjóðarmorð á palestínsku þjóðinni“.

Ofbeldi verður ekki til í tómarúmi

„Þó gríðarleg verðbólga og himinháir vextir hér heima séu kannski lítils háttar óþægindi. Í þessu samhengi hefur þessi staða ýtt undir þegar mjög alvarlega húsnæðiskrísu og skapað mikla erfiðleika í lífi fólks sem þegar átti á brattann að sækja,“ sagði Halldóra.

Þá nefndi hún hnífsstunguárásina sem varð 17 ára barni að bana.

„Það verður að koma í veg fyrir að þessi harmleikur endurtaki sig. Ofbeldi verður ekki til í tómarúmi. Samfélagslegir innviðir eiga að vinna gegn ofbeldi með því að styðja betur við fjölskyldur og börn og meðhöndla áföll foreldra og barna snemma.“

„En öll kerfi hins opinbera sem eiga að grípa fólk sem þarf á aðstoð að halda hanga á bláþræði og hafa gert það allt of lengi.“

Þrjár ríkisstjórnir með þrjár ólíkar stefnur

„Á þessum krísutímum þegar okkur hefur sárvantað sterka sameinaða ríkisstjórn höfum þurft að díla við sundraða ríkisstjórn, í raun þrjár ríkisstjórnir með þrjár ólíkar stefnur sem ná ekki saman, ekki einu sinni í smærri málum.“

Hún sagði þá sundrung innan ríkisstjórnarinnar hafa leitt til þess að traust almennings til lýðræðisins hafi dvínað. Vantraust á lýðræðislegum ferlum og stofnunum samfélagsins sundri samfélögum og ýti undir ótta og tortryggni.

„Þetta nýta sér svo óprúttnir stjórnmálamenn sem kynda undir fordóma og gefa í skyn að örlítill hópur fólks sem er á flótta undan stríði beri einhvern veginn ábyrgð á vandamálum á borð við húsnæðisskort og vanda í heilbrigðiskerfinu.“

Hún sagði það aftur á móti óásættanlegt að kenna minnihlutahópum um vandamál sem stjórnvöld hafi í hendi sér að leysa.

Einstaklingshyggja og gáfumannaveldi

Halldóra nefndi að undanfarna áratugi hafi einstaklingshyggja og hugmyndir um gáfumannaveldi ráðið ríkjum á Íslandi – sú hugmynd að þeir sem hafi mesta og besta verðleika fái að njóta afraksturs vinnu sinnar.

„Þetta hljómar réttlátt, hljómar fallega en veruleikinn er annar. Því að niðurstaðan er sú að samfélagið okkar, lofsyngur þá ríku en niðurlægir fólkið sem nær ekki árangri.“

Skautun af þessu tagi sé drifkrafturinn í þeirri bylgju popúlisma sem hafi sést rísa í hinu pólitíska landslagi víða um heim síðasta áratug.

„Ef við getum breytt um kúrs og valið mennskuna þá þurfum við að styðja við stjórnmál sem forgangsraða samfélagslegri velmegun fram yfir þrönga eiginhagsmuni og ryðja úr vegi þeim kerfislægu hindrunum sem halda aftur af tækifærum fólks til menntunar, heilbrigðisþjónustu og atvinnu.“

Ungt fólk með lykilhlutverk

„Stjórnmál eru miklu meira en bara einhver hagvöxtur og hagkvæmur rekstur. Stjórnmál verða líka að fjalla á dýpri hátt um áhrif hugmyndafræði, samfélagið okkar og fjalla um réttlæti, sanngjarna, skiptingu gæða og almannaheill,“ sagði hún.

Slíkt samtal þurfi að ná til almennings því allir eigi að fá tækifæri til að skilgreina samfélagið sem þeir vilji búa í.

„Hér leikur ungt fólk lykilhlutverk enda er framtíðarsamfélagið á þeirra ábyrgð en það gerist ekki af sjálfu sér að ungt fólk taki þátt í samtalinu. Þá þarf að undirbúa jarðveginn. Það þarf að skapa rými. Það þarf að skapa áhuga og tækifæri til þátttöku og til þess þarf stjórnmálafólk sem í alvörunni trúir því að þátttaka ungs fólks skipti sköpum fyrir samfélagið til lengri tíma og beiti sér fyrir því að það verði að veruleika.“

„Kæra þjóð, við getum valið aðra leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert