Lögreglan á Austurlandi hefur fengið í hendur bráðabirgðaniðurstöður úr krufningu á hjónum á áttræðisaldri sem fundust látin í heimahúsi í Neskaupstað þann 22. ágúst síðastliðinn.
Gæsluvarðhald yfir manninum sem er grunaður um að hafa hjónunum að bana var á föstudaginn framlengt til 4. október en hann var handtekinn í Reykjavík og úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði. Þá var einnig fallist á kröfu um geðrannsókn á hinum grunaða.
„Myndin er alltaf að verða skýrari og þær bráðabirgðaniðurstöður sem við höfum fengið úr krufningunni er eitt púslið í stórri mynd,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, í samtali við mbl.is.
Kristján Ólafur segir að vettvangsrannsókn sé lokið en rannsókn málsins sé enn í fullum gangi og beðið sé eftir niðurstöðum úr gögnum til að mynda DNA-sýni og að öflun gagna standi enn yfir. Þá segir hann að vinna sé enn í gangi hvað varðar rannsókn um hvort eða hvaða vopni hafi verið beitt.