Segir stjórnarandstæðinga munda niðurskurðarhníf

Guðmundur Ingi fyrr í kvöld.
Guðmundur Ingi fyrr í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin mun sýna aðhald í ríkisfjármálum, sporna við útgjaldavexti en einnig afla nýrra tekna. Ekki verður ráðist gegn verðbólgunni með niðurskurði.

Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í ræðu sinni á Alþingi í kvöld að lokinni stefnuræðu forsætisráðherra.

Verðbólgan stærsta verkefnið

Hann sagði að stærsta verkefnið í vetur yrði að ná niður verðbólgu og vöxtum.

„Það er alveg skýrt að ríkisstjórnin mun ekki ráðast gegn verðbólgunni með blóðugum niðurskurði sem myndi ógna félagslegum stöðugleika. Jú, við munum vissulega sýna aðhald í ríkisfjármálum, sporna við útgjaldavexti, en einnig afla nýrra tekna. Og við verjum velferðina fyrir niðurskurðarhnífnum sem sumir stjórnarandstöðuflokkar munda og vilja beita,“ sagði hann.

Guðmundur sagði að áfram yrði velferðarkerfið eflt og hið félagslega stuðningsnet, einkum til að koma til móts við lágtekjufólk og barnafjölskyldur.

„Hér skiptir mestu máli ríflegur kjarapakki ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði,“ sagði hann.

Munu stuðla að auknu framboði

Hann nefndi að í kjarapakkanum væru miklar kjarabætur í formi hækkaðra húsnæðisbóta og barnabóta, gjaldfrjálsra skólamáltíða, vaxtabóta og frekari uppbyggingu félagslegs húsnæðis.

„Allar þessar aðgerðir eru félagslegs eðlis og þær stuðla að jöfnuði og réttlátara samfélagi,“ sagði hann og bætti við:

„Við stöndum hins vegar enn frammi fyrir of hárri verðbólgu þó svo að hún sé á niðurleið. Það er að stórum hluta vegna húsnæðisliðarins. Þar þarf áframhaldandi sameiginlegt átak.“

Loftlagsmál verði að vera útgangspunktur

Hann sagði að VG legði mikla áherslu á að tryggja stjórnarskrárvarða þjóðareign á auðlindum fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Þá vilji VG koma sterku umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá og tryggja „að gjald af nýtingu auðlinda renni í sameiginlega sjóði okkar“.

„Loftslagsváin vofir enn yfir okkur, það vitum við öll. Um leið og ég fagna því að ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hafi litið dagsins ljós, þá leyfi ég mér að brýna okkur öll: Allt samfélagið, fyrirtæki, almenning, einstaklinga til að taka enn stærri skref.

Loftslagsmálin verða alltaf að vera útgangspunktur, því loftslagið er umgjörðin og grunnurinn utan um auðlindirnar og vistkerfin og á auðlindunum og vistkerfunum byggjum við jú tilvist okkar. Án þeirra höfum við ekkert. Hvorki fæði né klæði,“ sagði hann og bætti við að baráttan gegn loftslagsvánni væri ekki bara stærsta umhverfismálið, heldur líka eitt stærsta velferðarmál 21. aldarinnar.

Bakslag í réttindabaráttu

Hann sagði bakslag vera í viðhorfum gagnvart konum og hinsegin fólki, gagnvart fötluðu fólki og innflytjendum um allan heim.

„Við sem samfélag, við verðum að snúa bökum saman og snúa þessu bakslagi við. Mig langar að nefna að í mínum huga er til dæmis algjört forgangsverkefni að útrýma kynbundnum launamun, að útrýma kynbundnu ofbeldi. Hvorugt á heima í samfélagi okkar.“

Hræðileg ofbeldismál megi ekki endurtaka sig

Hann sagði að hræðileg ofbeldismál ungmenna að undanförnu mættu ekki endurtaka sig. Leiðarljósið þyrfti að vera samfélag þar sem samkennd, kærleikur og heilbrigð samskipti væru í forgrunni.

Hann sagði ríkisstjórnina hafa náð miklum árangri fyrir samfélagið á undanförnum árum. En baráttunni fyrir félagslegu réttlæti, mannréttindum og kvenfrelsi, friði og umhverfis- og náttúruvernd, lyki þó aldrei.

„Á komandi þingvetri bíða okkar mörg þýðingarmikil mál. Þar mætti nefna samgönguáætlun, það mætti nefna lögfestingu Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stefnu á sviði sjávarútvegs og margvíslegar breytingar á fiskveiðilöggjöfinni. Ekki síst breytingar sem auka eiga gagnsæi og réttlæti í meðferð þessarar sameiginlegu auðlindar þjóðarinnar,“ sagði hann.

Munum komast í gegnum erfiðleika

Þá sagði hann að hann myndi í nóvember jafnframt koma með þingmál í málefnum innflytjenda fyrir þingið. Tækifæri innflytjenda væru ekki þau sömu og innfæddra, eins og ný skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sýndi.

„Hér þarf að gera betur. Það þarf meiri aðstoð í skólana, það þarf að auka færni og kunnáttu innflytjenda í íslensku og það þarf að meta að meiri verðleikum hæfileika, menntun og reynslu innflytjenda. Það er gott fyrir einstaklingana og það er gott fyrir samfélagið,“ sagði hann og bætti svo við að lokum:

„Virðulegi forseti – góðir landsmenn! Við göngum nú í gegnum erfiðleika í efnahagslífinu en við munum komast saman í gegnum þá erfiðleika. Og það sést til lands í þeim efnum. Við munum hafa hag almennings að leiðarljósi í störfum okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert