Skýjaborgir stjórnvalda í Laugardal

Fimm starfs­hóp­ar, tvö und­ir­bún­ings­fé­lög og fram­kvæmda­nefnd hafa verið stofnuð vegna …
Fimm starfs­hóp­ar, tvö und­ir­bún­ings­fé­lög og fram­kvæmda­nefnd hafa verið stofnuð vegna áforma um fram­kvæmd­ir við þjóðar­höll inn­an­hússíþrótta og þjóðarleik­vanga í knatt­spyrnu og frjálsíþrótt­um frá ár­inu 2015. Samsett mynd

Það kvað við kunnuglegan tón þegar viljayfirlýsing um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal var undirrituð í byrjun mánaðar. Að undirrituninni komu þrír ráðherrar, borgarstjóri, formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) og formaður Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ).

„Metnaður stjórnvalda stendur eðli málsins samkvæmt til þess að styðja við sívaxandi árangur og afrek Íslendinga í alþjóðlegri íþróttakeppni, en mikilvægt er að leikvangar standist ríkar kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda til alþjóðlegrar keppni,“ sagði í tilkynningu Stjórnarráðsins þar sem greint var frá viljayfirlýsingunni.

Saga fyrirhugaðra umbóta og uppbygginga þjóðarhalla og þjóðarleikvanga í Laugardalnum er saga fagurra fyrirheita og ótal margra starfshópa, viljayfirlýsinga, undirbúningsfélaga og áætlana, sem ekki hafa gengið eftir fram til þessa. 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigurður …
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, og Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ rita undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu þjóðarleikvanga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfshópar og skýrslugerð

Umbætur á Laugardalsvelli og uppbygging nýs þjóðarleikvangs hafa lengi verið í umræðunni hér á landi, sér í lagi eftir frábært gengi landsliða karla og kvenna í knattspyrnu á stórmótum og undankeppnum þeirra. Áhugi Íslendinga á landsleikjum jókst um skeið til muna, trekk í trekk varð uppselt á landsleiki og færri fengu miða á landsleiki en vildu. Völlurinn í sinni núverandi mynd stenst aftur á móti ekki alþjóðlegar kröfur, eins og margoft hefur verið fjallað um.

Það var í október árið 2015 sem ráðgjafarfyrirtækið Borgarbragur vann forathugun fyrir KSÍ í tengslum við möguleika á nýjum Laugardalsvelli. Var markmiðið að athuga með skipulögðum hætti hvort grundvöllur væri fyrir byggingu fjölnota þjóðarleikvangs í Laugardal sem uppfyllti nútímakröfur til knattspyrnuiðkunar á alþjóðavísu. Skýrslan var kynnt stjórn Knattspyrnusambandsins í desember 2015.

Þann 10. mars 2016 sendi KSÍ borginni bréf og lýsti áhuga á að ganga til viðræðna um hugsanleg kaup sambandsins á Laugardalsvelli og hefja samtal um uppbyggingu innan núverandi byggingarreits vallarins án fjárhagslegrar aðkomu borgarinnar. Áður höfðu KSÍ og FRÍ komist sameiginlega að þeirri niðurstöðu að til framtíðar skyldi stefnt að því að frjálsíþróttir myndu víkja af Laugardalsvelli á nýjan þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum.

Í kjölfar bréfs KSÍ skipaði Reykjavíkurborg starfshóp um framtíð Laugardalsvallar þann 18. apríl 2016. Yfirlýst markmið var að afla upplýsinga í þeim tilgangi að borgarráð og borgarstjórn gætu betur áttað sig á hvaða skref mætti taka til að koma málinu áfram.

Hópurinn fundaði þrisvar auk þess sem formaður hópsins átti fund með þeim sem reka leikvangana Tele2 og Friends í Stokkhólmi og skoðaði mannvirkin í tengslum við ráðstefnu sem hann sótti í sænsku höfuðborginni.

Í sama mánuði, apríl 2016, var ráðgjafarfyrirtækið Lagardère Sports (LS) fengið til að koma að verkefninu til ráðgjafar. Vann það viðskiptaáætlun með Borgarbrag fyrir KSÍ, Reykjavíkurborg og forsætisráðuneytið. Skýrsla LS var kynnt í ágúst 2016.

Fundað í borgarráði

Þann 15. september 2016 voru hugmyndir KSÍ um framtíð Laugardalsvallar kynntar á fundi borgarráðs.

Var eftirfarandi tillögu vísað til borgarstjórnar:

„Lagt er til að borgarráð samþykki að fallast á að hefja formlegar viðræður Reykjavíkurborgar, ríkisins og KSÍ um framtíð Laugardalsvallar, á grundvelli erindis KSÍ frá 10. mars 2016, þar sem óskað var eftir viðræðum um „hugsanleg kaup sambandsins á Laugardalsvelli og hefja samtal um uppbyggingu innan núverandi byggingarreits vallarins án fjárhagslegrar aðkomu borgarinnar“. Með viðræðunum er stefnt að sameiginlegri viljayfirlýsingu þessara aðila um aðkomu ríkisins að fjármögnun þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsum íþróttum en með fyrirvörum um samþykki á nauðsynlegum breytingum á skipulagi í Laugardal og að KSÍ takist að fjármagna verkefnið.“

Á fundi borgarráðs var einnig kynntur nýr völlur sem Yrki arkitektar teiknuðu að frumkvæði borgarinnar, að því er fram kom í umfjöllun Vísis 21. september 2016. Borgin fól Yrki að skoða mögulega stækkun vallarins og byggingarmagn. Í frétt Vísis kom fram að útfærsla Yrkis hefði ekki miðast við hugmyndir KSÍ heldur verið svokölluð frumskoðun til að átta sig á aðstæðum og möguleikum.

Boðað til blaðamannafundar

Í byrjun árs 2017 voru niðurstöður hönnunarvinnu og mat á framkvæmdakostnaði Lagardère Sports við nýjan Laugardalsvöll kynntar. Var verkefnið unnið í samstarfi við Borgarbrag sem fór með almenna verkefnastjórnun.

Viðskiptaáætlun LS tók mið af hönnun og kostnaði við uppbyggingu auk rekstraráætlunar fyrir mannvirkið. Við tók útlagning verkefnisins sem var fram undan, þar á meðal var hugað að því hvernig ætti að fjármagna það, hvernig eignarhaldi yrði háttað og hver ætti að stýra verkefninu á framkvæmdatímabili og eftir að framkvæmdum lyki. Niðurstöður úr þeirri vinnu voru kynntar á sumarmánuðum 2017, eins og fram kemur í skýrslu KPMG.

Þann 19. október 2017 var blaðamannafundur haldinn. Þar voru þrjár tillögur að nýjum Laugardalsvelli kynntar auk þess sem greint var frá því að ríkið hefði verið fengið að borðinu. Sú hugmynd að KSÍ myndi kaupa Laugardalsvöll og standa eitt að uppbyggingu hans virtist jafnframt vera komin út af borðinu. Þær þrjár hugmyndir sem þá komu til greina voru upplyfting á gamla vellinum sem var metin á um 500 milljónir króna, völlur með opnu þaki sem var metinn á fimm milljarða króna, og að lokum fjölnota Laugardalsvöllur með opnanlegu þaki sem metinn var á átta milljarða.

Eins og áður kom fram lágu þegar fyrir hagkvæmniathugun, rekstraráætlun, forhönnun og kostnaðarmat mannvirkjanna. Næsta skref var því aðeins að leggja mat á undirbúningsgögn og taka ákvörðun. Átti það verkefni að falla í hlut nýs starfshóps sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi frá á fundinum að yrði skipaður.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðrún Inga Sívertsen, þáverandi varaformaður KSÍ, Guðni …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðrún Inga Sívertsen, þáverandi varaformaður KSÍ, Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, og Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, á blaðamannafundinum 19. október 2017. mbl.is/Andri Yrkill

Funduðu sextán sinnum

Það var svo þann 11. janúar 2018 sem ríkið og Reykjavíkurborg skrifuðu undir yfirlýsingu um skipun nýs starfshóps.

Hópnum var falið að kanna eftirfarandi: Hvers konar leikvangur væri hagstæðastur í Laugardal af þeim kostum sem skoðaðir hefðu verið, fjármögnun og kostnaðarskiptingu út frá þeirri hugmynd sem yrði fyrir valinu, eignarhald og rekstrarform mannvirkisins, fyrirkomulag útboðsmála, innkaupa og samninga, mögulega aðkomu ríkisins að verkefninu, m.a. í ljósi hugmynda um regluverk um þjóðarleikvanga, mögulega aðkomu Reykjavíkurborgar að verkefninu, mögulega aðkomu KSÍ að verkefninu og svo tilhögun framkvæmda og tímaáætlun.

Þann 16. apríl 2018 skilaði starfshópurinn niðurstöðum eftir að hafa fundað alls sextán sinnum á fjögurra mánaða tímabili. Hópurinn naut m.a. liðsinnis KPMG. Verkís og Lagardère Sports. Sérfræðingar LS komu alls fjórum sinnum fyrir nefndina til að varpa ljósi á þá vinnu sem fyrirtækið hafði unnið í tengslum við verkefnið. Þá var skipaður undirhópur sérfræðinga í útboðsmálum sem lagði fram minnisblað um mögulegar leiðir þar að lútandi.

Í skýrslunni sem KPMG vann fyrir starfshópinn kom m.a. fram að viðskiptalíkan nýs þjóðarleikvangs sem LS vann virtist trúverðugt í meginatriðum en að ýmsum gögnum og áætlunum væri þó ábótavant, þá meðal annars aðgreining á tekjum og kostnaði. Fram kom að rekstrarlíkan einnar tillögunnar virtist hafa verið unnið í flýti og að forsendur fyrir stórum kostnaðarliðum hefðu verið leiddar út með mjög grófum nálgunum sem hefðu verið byggðar á erlendum fyrirmyndum.

Þá leiddi skýrsla sem Verkís vann fyrir hópinn m.a. í ljós að kostnaðaráætlanir LS hefðu verið gróflega vanmetnar.

Áætluð verklok vorið 2021

Í skýrslu starfshópsins kom fram að ekki hefði verið unnt að taka lokaákvörðun um endurnýjun þjóðarleikvangs nema ítarlegri upplýsingar lægju fyrir um kostnað, hönnun, umhverfi og skipulag. Var því lagt til að stofnað yrði undirbúningsfélag ríkis, Reykjavíkurborgar og KSÍ í því skyni að greina betur kostnað og rekstrargrundvöll og um leið minnka áhættu. Átti Reykjavíkurborg að fara með 50% hlut í félaginu, ríki 42,5% og KSÍ 7,5%.

Í skýrslunni voru tillögurnar að nýjum leikvangi þrengdar niður úr þremur í tvær, og sú ódýrasta tekin út. Var nú aðeins lagt upp með að skoðaðar yrðu svokölluð tillaga A, sem fól í sér yfirbyggðan völl með opnu þaki sem tæki 17.500 áhorfendur, og tillaga B sem var fjölnota mannvirki, með þaki sem væri hægt að opna og loka eftir þörfum, sem tæki 20 þúsund áhorfendur.

Lögð var fram tímalína í skýrslunni þar sem gert var ráð fyrir að ákvörðun um útfærslu leikvangsins lægi fyrir í desember 2018, samningar um uppbyggingu nýs vallar yrðu í höfn vorið 2019 og að nýr þjóðarleikvangur yrði að lokum vígður vorið 2021.

Skýrsluna má nálgast á sérstakri undirsíðu Stjórnarráðsins sem komið var á fót og virðist hafa átt að geyma allar upplýsingar um framvindu verkefnisins. Nýjustu upplýsingar þar eru frá apríl 2018.

Lögð var fram tímalína í skýrslunni þar sem gert var …
Lögð var fram tímalína í skýrslunni þar sem gert var ráð fyrir að ákvörðun um útfærslu leikvangsins lægi fyrir í desember 2018. mbl.is/Hákon

Félagið á eftir áætlun fyrir stofnun þess

Í tilkynningu stjórnvalda 16. apríl 2018, þar sem greint var frá niðurstöðum framangreinds starfshóps, kom einnig fram að ríkisstjórnin, borgarráð og KSÍ hefðu samþykkt að stofna undirbúningsfélag um mögulega framkvæmd Laugardalsvallar, eins og starfshópurinn hafði lagt til.

Var þá ráðgert að undirbúningi fyrir ákvörðun um uppbyggingu vallarins skyldi lokið fyrir lok árs 2018. Var það hlutverk félagsins að undirbúa lokaákvörðun um endurnýjun Laugardalsvallar og í kjölfarið byggingu þeirra mannvirkja sem ákveðið yrði að byggja.

Undirbúningsfélagið, sem átti að taka ákvörðun fyrir lok ársins 2018, hafði þó ekki verið stofnað þegar árið leið undir lok.

Þann 3. maí 2019 var þungum áhyggjum af aðstöðuleysi landsliða og afreksíþróttafólks Íslands í flestum íþróttagreinum lýst í ályktun sem var samþykkt á íþróttaþingi Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.

Undirbúningsfélag stofnað

Það var svo ekki fyrr en 12. júní 2019 sem Reykjavík, KSÍ og ríkið undirrituðu loks stofnsamning að félaginu Þjóðarleikvangi ehf. Við stofnun félagsins voru lagðar til 50 milljónir króna til reksturs þess.

Skiptist stofnframlagið hlutfallslega á milli eigenda félagsins. Í stofnsamningnum kom fram að tilgangur félagsins væri að starfa að undirbúningi að byggingu þjóðarleikvangs í Laugardal í stað Laugardalsvallar. Formaður stjórnar félagsins var skipaður Árni Geir Pálsson viðskiptafræðingur.

Í nóvember 2019 efndi Þjóðarleikvangur til forútboðs á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem aflað var upplýsinga um áhuga og reynslu aðila af ráðgjöf um kostnaðar- og tekjumat á sviði byggingar og rekstrar fótboltaleikvanga. Um miðjan desember hafði 31 aðili skráði sig inn og sótt gögn á útboðssíðuna og 13 skilað inn gögnum, þar af nokkur öflug og reynd alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki með mikla reynslu af byggingu og rekstri leikvanga, að því er fram kom í tilkynningu á vef KSÍ.

Þann 4. febrúar 2020 var útboð á ráðgjafarþjónustu fyrir Þjóðarleikvang ehf. auglýst á útboðsvef innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar og á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem markmiðið var að leita tilboða í ráðgjöf um kostnaðar- og tekjumat vegna fjögurra mismunandi sviðsmynda við endurnýjun Laugardalsvallar: Að aðstaða yrði að mestu leyti óbreytt eða með lágmarksbreytingum og lagfæringum, að farið yrði í viðbætur og framkvæmdir á núverandi aðstöðu til að uppfylla alþjóðlega staðla, að byggður yrði opinn knattspyrnuvöllur með allt að 17.500 sæti, eða að byggður yrði fjölnotaleikvangur með opnanlegu þaki með allt að 20.000 sæti.

Í mars 2020 átti svo að hefjast vinna við að meta tilboðin í samræmi við matslíkan útboðsgagna og í framhaldinu ganga til samningagerðar við þann sem átti hagkvæmasta tilboðið, að því er fram kom á vef KSÍ. „Þannig má gera ráð fyrir því að endanleg skýrsla liggi fyrir í júní/júlí [2020] og verði þá afhent eigendum Þjóðarleikvangs ehf. sem eru Reykjavíkurborg, ríkissjóður og KSÍ,“ sagði á vef KSÍ.

Laugardalsvöllur var tekinn í notkun árið 1957 en síðustu endurbætur …
Laugardalsvöllur var tekinn í notkun árið 1957 en síðustu endurbætur voru gerðar árin 2006-2007. mbl.is/Hákon

Lágmarksendurbætur ekki fýsileg langtímalausn

Þann 10. nóvember 2020 samþykkti ríkisstjórnin að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu. Í tilkynningu Stjórnarráðsins kom fram að breska ráðgjafarfyrirtækið AFL hefði reynst hlutskarpast í útboðinu sem efnt hafði verið til í febrúar sama ár. Áttu viðræður við Reykjavíkurborg að byggja á valkostagreiningu þess.

Að mati fyrirtækisins var 15 þúsund manna leikvangur án þaks hagkvæmasti kosturinn ef aðeins var horft til beinna fjárhagslegra þátta. Þá taldi AFL ekki fýsilega langtímalausn að ráðast í lágmarksendurbætur og lagfæringar á núverandi velli eða að völlurinn yrði aðeins endurbættur svo hann uppfyllti kröfur og staðla Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) og Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA).

Í tilkynningunni var haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, að hún væri vongóð um að leikvangurinn risi á næstu fimm árum. Þá var haft eftir Bjarna Benediktssyni, sem þá var fjármálaráðherra, að hann væri fullur bjartsýni um að nýr þjóðarleikvangur myndi rísa sem allra fyrst.

Engar fleiri nefndir skipaðar

Í stjórnarsáttmála Vinstri hreyfingar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í nóvember 2021 var kveðið á um að áfram yrði unnið að uppbyggingu þjóðarhallar inniíþrótta og þjóðarleikvanga.

Í viðtali á Vísi sem birtist 21. desember 2021 lofaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, að ekki yrðu skipaðar fleiri nefndir vegna þjóðarleikvanga. „Við ætlum ekki að horfa upp á það að landsliðin okkar séu að fara að spila alla heimaleiki erlendis á næstu árum,“ sagði Ásmundur.

Það urðu því margir undrandi þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023 til 2027 leit dagsins ljós í mars 2022. Þar var hvergi gert ráð fyrir uppbyggingu slíkra mannvirkja.

Laugardalsvöllur í nóvember árið 2020.
Laugardalsvöllur í nóvember árið 2020. mbl.is/Kristinn Magnússon

Algerlega og fullkomlega óásættanlegt

Síðar í sama mánuði ályktaði ÍSÍ að það væri „algerlega óásættanlegt ef ekki yrði unnt að hefja á þessu ári undirbúning að byggingu þjóðarleikvanga“.

Þann 4. apríl 2022 ályktaði stjórn KSÍ sömuleiðis að það yrði fullkomlega óásættanlegt ef ekki yrði ráðist í undirbúning að byggingu þjóðarleikvangs í knattspyrnu á sama ári, eftir það sem á undan hefði gengið. Óskaði stjórnin eftir frekari viðræðum við stjórnvöld án tafar um „þá alvarlegu stöðu“ sem upp var komin. Þá var jafnframt áréttað að vinna við nýjan þjóðarleikvang væri langt frá því að vera á upphafsreit.

„Meðal skrefa sem hafa verið tekin má nefna þátttöku í sérstakri ráðstefnu um þjóðarleikvang í samstarfi við bresk-íslenska viðskiptaráðið, stofnun félags með aðild KSÍ, Reykjavíkurborgar og ríkisins sem ætlað var að „starfa að undirbúningi og mögulegri uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal“, útboði á ráðgjafarþjónustu fyrir þjóðarleikvang þar sem markmiðið var að „leita tilboða í ráðgjöf um kostnaðar- og tekjumat vegna fjögurra mismunandi sviðsmynda við endurnýjun Laugardalsvallar“, og svo mætti áfram telja,“ sagði í ályktuninni.

Fleiri félög og fleiri starfshópar

Nú í september 2024 hefur þó ekkert orðið af áformum KSÍ, Reykjavíkurborgar og ríkisins um nýjan þjóðarleikvang.

Í millitíðinni hafa þó tveir starfshópar til viðbótar verið skipaðir, vegna byggingar nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir, og annar starfshópur þar að auki, um fyrirkomulag þjóðarleikvangs fyrir frjálsíþróttir.

Auk þess sem framkvæmdanefnd um uppbyggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum var skipuð og síðar félagið Þjóðarhöll ehf. sem tók við verkefnum nefndarinnar.

Hvað þjóðarhöll innanhússíþrótta varðar þá rituðu Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson þáverandi borgarstjóri undir viljayfirlýsingu um byggingu hennar í maí 2022, mánuði eftir áðurnefnda ályktun KSÍ. Var stefnan þá sett á að ljúka framkvæmdum við höllina árið 2025 og kostnaður metinn allt að 9 milljarðar.

Áætluð verklok hennar eru nú 2027 til 2028. Fyrsta skóflustungan hefur þó ekki enn verið tekin. Ekki frekar en skóflustunga að nýjum eða endurbættum Laugardalsvelli.

Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, …
Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, undirrita viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum. Áætluð verklok voru þá árið 2025. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kyrrstaðan rofin?

Í byrjun þessa mánaðar dró til tíðinda í málefnum nýs þjóðarleikvangs eftir nokkurra ára kyrrstöðu þegar Ásmundur Einar, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, og Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ rituðu undir viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal.

Á sama tíma eru rétt tæp níu ár liðin frá því Borgarbragur hóf forathugun fyrir KSÍ vegna nýs Laugardalsvallar. Rúm þrjú ár eru einnig liðin frá áætluðum verklokum við nýjan þjóðarleikvang, þá að mati níu manna starfshóps.

„Með yfirlýsingunni er stefnt að uppbyggingu tveggja aðskilinna þjóðarleikvanga utanhúss í Laugardal, þar sem þegar er unnið að uppbyggingu þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir,“ segir nú í tilkynningu stjórnvalda.

Viljayfirlýsing undirrituð 2. september.
Viljayfirlýsing undirrituð 2. september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Verður leyst í þessari nefnd eða næstu nefndum“

Fyrsti áfangi í uppbyggingu Laugardalsvallar er sagður munu fela í sér að núverandi grasi verði skipt út á vellinum fyrir blandað gras og að hitunarkerfi verði sett undir völlinn, með það að markmiði að gera Laugardalsvöll leikfæran stærri hluta ársins en nú er.

Kapp verði lagt á að reisa nýjan þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir og að hrinda þeirri vinnu af stað eins fljótt og kostur er. Í því samhengi er m.a. horft til keppni á Smáþjóðameistaramóti á Íslandi 2028 sem og Smáþjóðaleika fáum árum síðar. Þess ber að geta að ef áætlanir stjórnvalda ganga eftir myndu nýr þjóðarleikvangur fyrir frjálsíþróttir og ný þjóðarhöll rísa á sama tíma.

Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ sagði viljayfirlýsinguna stórkostlegar fréttir fyrir knattspyrnuhreyfinguna.

„Kyrrstaðan er rofin,“ sagði Freyr Ólafsson formaður FRÍ eftir blaðamannafundinn. „Við erum að stofna starfshóp um verkefnið þar sem hagsmunaaðilar koma saman. Vonandi er það uppskrift að hönnunarvinnu í framhaldinu. Það á eftir að fínpússa aðeins kostnaðarskiptingu ríkis og borgar. Það verður leyst í þessari nefnd eða næstu nefndum,“ sagði Freyr.

Hverjir klára svo verkið?

Stjórnartíð VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur verið stormasöm og hafa stjórnarliðar m.a. lýst því að þeir útiloki frekara samstarf eftir næstu þingkosningar.

Langt er enda um liðið frá því að stjórnarflokkarnir þrír mældust með meirihlutafylgi þjóðarinnar í skoðanakönnunum.

Alls óljóst er því hvort nokkur þeirra þriggja ráðherra sem skrifuðu undir plaggið í byrjun mánaðar leiki hlutverk í þeirri ríkisstjórn sem tekur við að ári liðnu, þegar framfylgja á loforðum og fögrum fyrirheitum um nýjan Laugardalsvöll, nýjan frjálsíþróttaleikvang og nýja þjóðarhöll í Laugardal.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert