„Við erum áhyggjufull þjóð“

Þorgerður Katrín fyrr í kvöld.
Þorgerður Katrín fyrr í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum áhyggjufull þjóð. Við finnum hana flest – tilfinninguna sem hreiðrað hefur um sig eftir þá sáru atburði sem skekið hafa okkar litla íslenska samfélag. Nú síðast þegar ung stúlka í blóma lífsins lét lífið eftir hnífsstunguárás.“

Svona byrjaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræðu sína á Alþingi í kvöld að lokinni stefnuræðu forsætisráðherra.

Hún sagði engan foreldra eiga að þurfa verða fyrir þeirri þungu raun að missa barnið sitt. Hún sagði alla hugsa hlýlega til allra þeirra sem nú eiga um sárt að binda og þurfa huggunar við.

Fólk klóri sér í kollinum

Þorgerður nefndi að á ferðum sínum um landið væri hún að hitta fólk sem ætti í verulegu basli með að greiða háa vexti af lánum sínum og aðra sem kæmust ekki inn á húsnæðismarkaðinn. Kenndi hún krónunni og slakri efnahagsstjórn um.

Hún sagði fólk á öllum aldri klóra sér í kollinum yfir því af hverju það hefði það ekki gott, þó það hefði gert allt eftir bókinni.

„Og það spyr sig: Af hverju þurfa þau að borga húsnæðið sitt þrisvar sinnum miðað við vini þeirra í nágrannalöndunum? Af hverju þessi dýra, dýra matarkarfa? Af hverju þessar heimasmíðuðu reglur sem nýtast ekki almenningi? Af hverju er ekki jafnt gefið?“ sagði Þorgerður.

Brengluð jarðtenging

Hún sagði ríkisstjórnina samt láta eins og ekkert væri að.

„Jarðtengingin er raunar svo brengluð að í vor sagði hæstvirtur forsætisráðherra í þessari pontu að „Ísland væri í bestu efnahagslegu stöðu í lýðveldissögunni“. Þar hafið þið það!

Ekki veit ég við hvaða fólk eða fyrirtæki ráðherrarnir í þessari ríkisstjórn eru að tala. En þetta er ekki sú staða sem blasir við venjulegu fólki þegar það opnar heimabankann sinn,“ sagði Þorgerður.

Ríkisstjórnin gefist upp á erindi sínu

Hún sagði sinnuleysi í ríkisfjármálum og skort á framtíðarsýn vera þjóðinni dýrkeypt. Hún sagði að ástandið þyrfti þó ekki að vera svona, vandinn væri heimatilbúinn og að hann myndi ekki breytast nema skipt væri um kúrs og um ríkisstjórn.

„Ég vil ekki hljóma svartsýn en það breytist ekkert, ekki neitt, hjá ríkisstjórn sem eftir sjö ára innbyrðis erjur hefur gefist upp á hlutverki sínu. Flokka sem hafa viðurkennt það fyrir opnum – bara galopnum – tjöldum að þeir geti ekki unnið saman. Hvað þá klárað brýn verkefni.“

Ekki meira en 12 mánuðir eftir af störukeppninni

Hún kvaðst þó bera þjóðinni góðar fréttir.

„Það eru í mesta lagi 12 mánuðir eftir af þessari störukeppni, þar sem fátt breytist nema titlar einstaka ráðherra. Við í Viðreisn höfum löngu ákveðið að nýta þennan langdregna lokakafla til að búa í haginn, því þegar loks losnar um límið á ráðherrastólunum er aldeilis verk að vinna.“

Hún sagði Viðreisn standa með fólkinu í landinu og fyrirtækjum. Ábyrgur ríkisrekstur, stöðugur gjaldmiðill, frjálslyndi og réttlæti væri sígildur boðskapur Viðreisnar.

„Við hlaupumst ekki undan merkjum til að slá tímabundnar pólitískar keilur eða þegar gefur á bátinn. Viðreisn stendur einfaldlega í lappirnar. Við ætlum að hafa pólitíska forystu um heilbrigt samfélag þar sem frjálslynd viðhorf, mennska og efnahagslegur sjálfsagi eru viðhöfð. En til þess þarf samtakamátt. Hann fæst ekki nema með nýrri ríkisstjórn,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert