„Við étum ekki steinsteypuna, er það?“

„12 til 15 prósent hækkun,“ hrópaði Inga Sæland, formaður Flokks …
„12 til 15 prósent hækkun,“ hrópaði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í líflegri ræðu í kvöld. Vísaðu hún þar til hressilegrar vaxtahækkunar Arion banka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í ræðu sinni í kvöld notaðist Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, við leikmuni. Tók hún í tvígang upp blað sem vísaði meðal annars til vaxtahækkunar Arion banka.

Hélt hún ræðu í kjölfar stefnuræðu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og var henni heitt í hamsi yfir stöðu efnahagsmála í landinu.

„Þvílíkt froðu flóð sem flæðir út um allar koppagrundir. Það er með hreinum ólíkindum að við getum hreinlega ekki annað en varist brosi,“ sagði Inga um ræðu Bjarna og gaf hún greinilega lítið fyrir orð forsætisráðherra.

„Hér er talað um að kaupmáttur sé hvað mestur. Hér er talað um að kaupmáttur hér sé jafnvel mun meiri heldur en í löndunum í kringum okkur sem við berum okkur saman við,“ sagði hún enn fremur og spurði: „Hverjum dettur í hug að trúa þessu bulli?“ 

Inga nefndi háa vexti og þá þungu verðbólgu „sem engin bönd hafa náðst utan um“.

„12 til 15 prósent hækkun“

Hún sagði að ríkisstjórnin vissi ekki hvort hún væri að koma eða fara og gagnrýndi hún jákvæða orðræðu stjórnarliða um efnahagsástandið á Íslandi, einkum fyrir að nefna að virði fasteigna hafi hækkað mikið á umliðnum árum. 

„Staðreyndin er sú að við erum ekki að fara að selja ofan af okkur þakið nema nauðsyn krefur til að innleysa þennan uppsafnaða hagnað, er það? Við étum ekki steinsteypuna, er það? Við skröpum hana ekki með ástand hníf niður á diskinn og létum steinsteypuna, er það?“

Þá nefndi hún nýlega vaxtahækkun Arion banka á verðtryggð fasteignalánum um allt að 0,5-0,75 prósentustig. Sakaði hún Arion banka um græðgi.

„Við skulum skoða það hér. 12 til 15 prósent hækkun,“ sagði Inga er hún tók upp hvítt blað sem á var ritað „12%“ og „15%“.

„Þvílík taumlaus ógeðisgræðgi. En við vitum öll að uppskriftin sem þessi hæstvirt ríkisstjórn hefur sett í í kökuna sína er nákvæmlega að ganga eftir.“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

20,1 prósent!

Þá nefndi hún einnig nýjar tölur sem sýna fram á 20,1% aukningu á alvarlegum vanskilum heimila í landinu. Notaðist hún við annað blað til að leggja áherslu á hlutfallið.

„Nei, þá segir þessi hæstvirta ríkisstjórn. Heimilin hafa aldrei staðið betur og eiga bara að þakka fyrir það hvað þeir hafa bólgnað út í allri þessari öllu, þessu brjálæði á fasteignamarkaði.“

Þá sagði hún að ríkisstjórnin hafi svipt ungt fólk þeim réttindum að koma sér þaki yfir höfuðið.

Lofar „alvöru stjórnarandstöðu“ í vetur

Hún nefndi að ríkistjórnin að 10,1 milljarður króna hafi átt að renna í almannatryggingakerfið til að komast til móts við öryrkja í landinu. En sá 10,1 milljarður sé nú notaður til að greiða fyrir kjarapakka ríkisstjórnarinnar.

„Í boði þessarar ríkisstjórnar þá mega öryrkjar áfram bíða eftir réttlætinu,“ sagði hún og hélt áfram.

„Ekki nóg með það að þetta almannatryggingafrumvarp sem byggir eingöngu á starfsgetumati, er svo illa ígrundað að einstaklingar sem eru að lenda í því að verða metnir til starfsgetu, þeir fá hvergi vinnu.“

Í boði þessarar ríkisstjórnar

Þá vitnaði Inga aftur í ræðu Bjarna:

„Ef við lítum nú á það sem hæstvirtur forsætisráðherra nefndi nú: fjölgun eldra fólks. Þetta er ég búinn að heyra síðan ég kom á Alþingi Íslendinga. Við lifum lengur, okkur fjölgar meira við deyjum seinna. En vitið þið það, kæru landsmenn, að það látast 24 eldri borgara aleinir heima hjá sér og á ári hverju og eru búnir að liggja þar mislengi dánir áður en þeir eru fundnir? Vissuð þið það? Það er í boði þessarar ríkisstjórnar eins og allt annað.“

Að lokum lofaði Inga þjóðinni „alvöru stjórnarandstöðu“ á komandi þingvetri og nefndi að stjórnarandstaðan hefði lagt 71 þingmál fram í gær sem öll lúti að því að bæta hag og kjör allra landsmanna.

„Við erum talsmenn allra, ekki bara sumra eins og sitjandi ríkisstjórnin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert