Ríkisstjórnin hefur samþykkt að skoða af mikilli alvöru þá ósk Listaháskóla Íslands að sameina starfsemi skólans í húsnæði Tækniskólans á Skólavörðuholti í stað Tollhússins við Tryggvagötu.
Með flutningi Tækniskólans í nýtt húsnæði í Hafnarfirði, sem áætlað er að rísi haustið 2029, skapast tækifæri til að nýta húsnæði skólans á Skólavörðuholti með öðrum hætti. Samkvæmt nýrri greiningu myndi þessi breyting ekki aðeins bæta verulega aðstöðu fyrir nemendur og kennara heldur einnig spara milljarða króna í framkvæmdakostnaði, að því er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið greinir frá.
Áætlað hefur verið að LHÍ gæti flutt inn í Tollhúsið eftir átta til tíu ár en í tilfelli Skólavörðuholts yrðu það að öllum líkindum aðeins fjögur til fimm ár, eða árið 2029.
Fyrstu áform um að sameina LHÍ í Tollhúsinu voru kynnt á ríkisstjórnarfundi í ágúst 2021, en kennsla skólans fer núna fram í sex byggingum víðs vegar um Reykjavík. Uppbyggingar framtíðarhúsnæðis LHÍ í Tollhúsinu er jafnframt getið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í maí 2022 var undirrituð viljayfirlýsing sama efnis milli ríkis, LHÍ og Reykjavíkurborgar.
Framkvæmdasýsla-Ríkiseignir áætlar að framkvæmdir við Tollhúsið muni kosta tæplega 17 milljarða króna, sem er um fimm milljörðum meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
Aukni kostnaðurinn myndi leiða til ríflega 45% hærra leiguverðs hjá LHÍ frá fyrri áætlunum sem mæta þyrfti með hagræðingu á öðrum sviðum, að því er fram kemur í tilkynningu.
Jafnframt eru takmarkaðir stækkunarmöguleikar fyrir hendi við Tryggvagötu en aðsókn í LHÍ hefur aukist mikið eftir niðurfellingu skólagjalda, en til að húsnæðið yrði fullbúið undir starfsemi skólans þurfti að rífa hluta hússins og reisa 9.000 fermetra nýbyggingu.
Aðra sögu er að segja af Skólavörðuholti. Húsnæði Tækniskólans er þegar hannað fyrir kennslu, bæði í verk- og bókgreinum, og húsnæðið þarfnast ekki viðlíka niðurrifs eða viðbygginga. Að sama skapi væru fleiri stækkunarmöguleikar fyrir hendi á Skólavörðuholti en í Tryggvagötu, ef þörf krefði.
Til þess að greiða úr ýmsum óvissuþáttum verður skipaður verkefnahópur með fulltrúum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og LHÍ. Hópurinn mun kanna fýsileika þess að koma LHÍ fyrir í húsnæði Tækniskólans á Skólavörðuholti og er miðað við að hann skili af sér niðurstöðu fyrir 29. nóvember næstkomandi.