Aðalmeðferð í Nýbýlavegsmálinu hafin

Réttarhöldin eru lokuð.
Réttarhöldin eru lokuð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalmeðferð í máli gegn fimm­tugri móður, sem sökuð er um að hafa orðið sex ára syni sín­um að bana og gert til­raun til þess að deyða eldri son sinn sömu­leiðis hófst í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Þing­haldið er lokað og fjöl­miðlum því meinaður aðgang­ur. Þá var notast við bakdyrainngang dómssalarins til að koma í veg fyrir að hægt væri að fylgjast með því hverjir væru mættir við upphaf aðalmeðferðarinnar.

Var metin sakhæf

Áður hefur komið fram að konan hafi játað sök í málinu en að hún telji sig hafa verið í þannig ástandi að verkið sé refsilaust.

Matsmenn í málinu eru þá ekki sammála því og komust í lok júlí að þeirri niðurstöðu að konan væri sakhæf.

Var nemandi í fyrsta bekk

Málið kom upp í lok janú­ar á þessu ári en konan sjálf hafði samband við lögreglu. Þegar lögregla kom á svæðið var sex ára son­ur henn­ar lát­inn en eldri son­ur kon­unn­ar far­inn í skól­ann. 

Kon­an er af er­lendu bergi brot­in og bjó á Ný­býla­vegi ásamt son­um sín­um tveim­ur þegar atvikið varð. Fjöl­skyld­an nýtur alþjóðlegr­ar vernd­ar og hef­ur verið bú­sett á Íslandi í um fjögur ár. 

Dreng­ur­inn sem lést var nem­andi í fyrsta bekk við Álf­hóls­skóla og var áfallat­eymi skól­ans virkjað í kjöl­far and­láts­ins. 

Eldri drengurinn slapp í skólann

Kon­an er ann­ars veg­ar ákærð fyr­ir mann­dráp og stór­fellt brot í nánu sam­bandi og hins veg­ar vegar fyrir til­raun til mann­dráps og stór­fellt brot í nánu sam­bandi. 

Í ákær­unni kem­ur fram að kon­an hafi svipt son sinn lífi með að setja kodda yfir and­lit hans og með báðum hönd­um þrýst kodd­an­um yfir vit hans, þrýst á háls hans og efri hluta brjóst­kassa hans og ekki linað þau tök fyrr en dreng­ur­inn var lát­inn. Lést hann af völd­um köfn­un­ar að því er fram kem­ur í ákær­unni.

Þá er konan sögð hafa farið inn í svefn­her­bergi eldri drengs­ins þar sem hann lá sof­andi á mag­an­um, tekið fyr­ir vit hans með ann­arri hendi og í hnakka hans með hinni. Þrýsti hún and­liti hans niður í rúmið þannig að hann gat ekki andað. Vaknaði dreng­ur­inn við þessa at­lögu og gat losað sig úr taki móður­inn­ar.

Fyr­ir hönd eldri drengs­ins er farið fram á að móðirin greiði hon­um tíu millj­ón­ir í bæt­ur, en auk þess fer faðir drengj­anna fram á átta millj­ón­ir í bæt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert