Ævar hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson hlaut barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár.
Rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson hlaut barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson tók við Barnabókaverðlaunum Guðrúnar Helgadóttur í Höfða nú síðdegis. Hann hlaut verðlaunin fyrir handrit að bókinni Skólastjórinn sem kemur út hjá Forlaginu á næsta ári. 

Verðlaunin eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og er ætlað að hvetja til metnaðarfullra skrifa fyrir börn og ungmenni og halda á lofti merkjum eins okkar ástsælasta barnabókahöfundar, að því er segir í tilkynningu.

„Þetta kom mjög skemmtilega á óvart,“ segir Ævar í samtali við Morgunblaðið. Hann nefnir sérstaklega að það hafi mikla þýðingu að verðlaunin séu kennd við Guðrúnu Helgadóttur.

Alls barst 41 handrit í samkeppnina í ár en þau eru send inn nafnlaust. „Það þykir mér mjög skemmtilegt. Ef sagan getur staðið ein, án þess að nokkur viti hver sé á bak við hana, veit maður að hún er að virka,“ segir Ævar. 

Á eftir að heilla unga lesendur

Í dómnefnd sátu Yrsa Sigurðardóttir, Þorgeir Ólafsson og Katrín Lilja Jónsdóttir. Í umsöfn dómnefndar segir: 

„Sjaldan hafa jafnmörg handrit borist í samkeppni Reykjavíkurborgar um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og í ár. Fjölmörg þeirra voru prýðisgóð og dómnefnd átti úr vöndu að ráða. Eftir endurtekinn lestur þeirra handrita sem þóttu skara fram úr varð það einróma álit dómnefndar að „Skólastjórinn“ væri það handrit sem bar af.

Um handritið hafði dómnefnd þetta að segja: „Skólastjórinn“ er skemmtileg og fyndin saga sem á án efa eftir að heilla unga lesendur. Sögupersónur eru vel skapaðar og trúverðugar og það sem drífur á daga þeirra er bæði skondið og til þess fallið að reyna á þær og þroska. Sagan er frumleg en hún segir frá Salvari og Guðrúnu vinkonu hans sem eru uppátækjasöm úr hófi. Þegar skólastjórinn í skólanum þeirra hættir störfum sækir Salvar um stöðuna og endar í hlutverki sem glansinn fer af þegar fram líða stundir.

Þó að húmorinn sé aldrei langt undan þá þurfa bæði Salvar og Guðrún að fást við trúverðug vandamál sem gefur lestrinum aukið vægi, þó aldrei þannig að skemmtanagildi lestursins missi dampinn. Sagan er svo í þokkabót vel skrifuð, á nútímamáli sem börn skilja og án óhóflegra enskuslettna. Dómnefnd telur einsýnt að „Skólastjórinn“ eigi eftir að falla vel í kramið hjá hressum krökkum enda skrifuð í anda eins besta barnabókahöfundar Íslendinga sem verðlaunin heita í höfuðið á.“

Lengra viðtal við Ævar Þór verður birt á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, föstudaginn 13. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka