Albert mættur fyrir dóm: Neitar sök

Albert Guðmundsson mætir í aðalmeðferð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Al­bert er …
Albert Guðmundsson mætir í aðalmeðferð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Al­bert er ákærður fyr­ir að nauðga konu á þrítugs­aldri. mbl.is/Iðunn

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson er mættur fyrir dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem aðalmeðferð í máli gegn honum fer fram í dag og á morgun.

Albert mætti fyrir dóm ásamt lögfræðingi sínum Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni en læknanemi á þrítugsaldri kærði hann fyrir nauðgun á síðasta ári. 

Albert flaug til landsins í vikunni til að gefa skýrslu í málinu en hann spilar fyrir ítalska liðið Fiorentina. Hann hef­ur ekki leikið fyr­ir ís­lenska landsliðið eft­ir að hann var ákærður.

Málið gegn Albert var upphaflega fellt niður en rík­is­sak­sókn­ari felldi ákvörðun héraðssak­sókn­ara úr gildi og lagði fyr­ir embættið að höfða saka­mál á hend­ur hon­um. 

„Já“

Þinghald fer fram fyrir lokuðum dyrum til að verja friðhelgi brotaþola. Lögfræðingur konunnar hefur gefið út að fjöl­skylda henn­ar tengist Alberti vina­bönd­um frá því hún var barn. 

Albert var fámáll er hann gekk inn í dómssal og lét spurningar blaðamanna sem vind um eyru þjóta. 

Spurður hvort hann neitaði sök sneri Albert sér aftur á móti við og svaraði skýrt „já.“

Ákæruvaldið krefst þess að Albert verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess einnig krafist fyrir hönd konunnar að Albert greiði henni þrjár milljónir króna í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert