Allir sammála um að æskilegt væri að opna bæinn

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Árni Sæberg

Það er reiknað með að jörðin láti okkur í friði í einhverjar vikur og helst mánuði en landrisið er hafið að nýju og við gerum ráð fyrir því að þessi gosáhlaup geti endurtekið sig.

Þetta segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við mbl.is. Eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell lauk fyrir sex dögum síðan sem var það sjötta á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember 2023. Eins og Fannar segir þá er landris hafið á nýjan leik og líklegt má telja að enn og aftur dragi til tíðinda á svæðinu á næstu vikum eða mánuðum.

Fram kom í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem kynnt var í vikunni, að ætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna fjölbreyttra stuðningsaðgerða við Grindavík árin 2023-24 nemi um 80 milljörðum króna.

Þar segir einnig að stjórnvöld leggi þunga áherslu á að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð Grindvíkinga og allt verði gert sem í þeirra valdi stendur til að Grindavík verði aftur það öfluga bæjarfélag sem það hafi verið fyrir eldsumbrotin.

Myndarlega staðið við okkur að hálfu ríkisvaldsins

„Það hefur verið mjög myndarlega staðið á bakvið okkur að hálfu ríkisvaldsins. Við áttum okkur á því að þetta eru gríðarlegir fjármunir en verðmæti fasteigna í Grindavík er á bilinu 170 til 200 milljarðar. Þá erum við líka að tala um höfnina sem er ein sú besta á landinu, vegi, lagnir og fasteignir ofanjarðar,“ segir Fannar.

Hann segir að þótt það séu settir þó nokkuð margir milljarðar í varnargarða þá efist enginn um að ef atburðunum linni og hægt verði að byggja bæinn upp að nýju þá hafi peningunum verið vel varið.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæjarráð Grindavíkur hefur lagt á það mikla áherslu að bærinn verði opnaður sem fyrst fyrir almenningi og lokunarpóstar verði aflagðir í núverandi mynd. Spurður hvaða skoðun hann hafi á þessu segir Fannar:

„Það eru í rauninni allir sammála um að það væri æskilegt að opna bæinn og þar með almannavarnir. Það er bara spurningin hvenær telst það vera óhætt. Það er beðið eftir áhættumati til þess að geta farið að huga að tímasetningum um opnun og það þarf líka að vera búið að ljúka þeim framkvæmdum að girða af hættuleg svæði og allar sprungur,“ segir Fannar.

Hann segir að sú vinna sé á góðri leið og það stefni allt í rétta átt í þessum efnum. 

„Ef við fáum að vera í friði þá er það talið í vikum en ekki mánuðum að það verði alvarlega hugað að því að opna bæinn.“

Mjög jákvæð skref

Fannar segir að því miður séu teikn á lofti að gos hefjist á nýjan leik á næstu mánuðum en óvissa sé í gangi hvar upptekin verði.

„Það kom vísindamönnum flestum á óvart hversu norðarlega upptökin voru síðast og hraunið fór um svæði sem olli ekki tjóni á innviðum. Það létti verulega andrúmsloftinu í Grindavík að gosið kæmi upp á þessum stað. Það var ótti hjá fólki ef gosið kæmi upp sunnarlega en þótt það sé alltaf alvarlegt að fá eldgos þá ógnaði það ekki okkur né innviðum annars staðar,“ segir Fannar.

Kvikan, menningarhús Grindvíkinga, opnaði á nýjan leik í vikunni en þar geta Grindvíkingar komið saman, spjallað og fengið sér kaffisopa.

„Þetta voru mjög jákvæð skref og þau fyrstu í átt að því að koma meira lífi í bæinn. Við gleðjumst yfir hverju einu sem verður til þess að við getum farið að vera í bænum og hittast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert