Andlát: Sigurður Helgi Guðjónsson

Sigurður Helgi Þorsteins Guðjónsson er látinn, 71 árs að aldri. …
Sigurður Helgi Þorsteins Guðjónsson er látinn, 71 árs að aldri. Hann var lengi í forsvari fyrir Húseigendafélagið og sinnti lögmennsku til fjölda ára.

Sigurður Helgi Þorsteins Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og fv. formaður Húseigendafélagsins, lést 5. september sl., 71 árs að aldri.

Sigurður fæddist í Reykjavík 24. mars 1953. Foreldrar hans voru þau Laura Risten Friðjónsdóttir Döving, húsmóðir, og Guðjón Breiðfjörð Jónsson, bifvélavirki. Fósturforeldrar Sigurðar voru móðurforeldrar hans, þau Berit Gunhild Risten, sem var Sami frá Tana í N-Noregi, og Friðjón Sigurðsson.

Sigurður Helgi lauk menntaskólaprófi frá MT 1974 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1979. Hann hlaut héraðsdómslögmannsréttindi 1980 og hæstaréttarlögmannsréttindi 1986.

Sigurður var frá upphafi starfsferils síns samofinn Húseigendafélaginu. Hann var lögfræðingur og framkvæmdastjóri þess frá 1977-1985 og aftur frá 1992-2024. Jafnframt var hann formaður félagsins frá árinu 1995.

Samhliða störfum sínum hjá Húseigendafélaginu gegndi Sigurður embætti dómarafulltrúa hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík árin 1983-1985 en sinnti eftir það málarekstri frá árinu 1985-1992 í félagi við Ragnar Aðalsteinsson, Viðar Má Matthíasson, Tryggva Gunnarsson og Othar Örn Petersen.

Í kjölfarið hóf Sigurður störf að nýju hjá Húseigendafélaginu sem framkvæmdastjóri og lögfræðingur þess, og tók jafnframt við sem formaður þess árið 1995. Hann starfaði frá þeim tíma óslitið hjá félaginu til síðastliðins vors 2024.

Sigurður samdi frumvarp til nýrra laga um fjöleignarhús sem lögfest voru árið 1994, sem og frumvarp til húsaleigulaga sem einnig voru lögfest sama ár. Þá vann hann sem ráðgjafi við samningu frumvarps til laga um fasteignakaup.

„Óhætt er að segja að lagasetning á þessum sviðum hafi tekist með eindæmum vel. Fjöleignarhúsalöggjöfin fól í sér miklar réttarbætur fyrir fasteignaeigendur og húsaleigulögin tryggðu leigjendum góða réttarstöðu og -öryggi án þess þó að hagsmunir leigusala væru fyrir borð bornir,“ segir í minningarorðum Húseigendafélagsins.

Sigurður Helgi sat jafnframt í jafnréttisráði frá 1982-1992 og kærunefnd jafnréttismála frá 1992-1995, ásamt samninganefnd lögfræðinga í ríkisþjónustu, svo og í stjórn Lögfræðingafélags Íslands og kjaranefnd Lögmannafélags Íslands, ásamt því að sinna kennslu við lagadeild Háskóla Íslands.

Auk þess var hann mikill hundavinur og barðist með oddi og egg fyrir hagsmuni þeirra ferfættu.  Þannig kom hann að samningu ýmissa reglna og laga sem snertu hundahald í Reykjavík og hér á landi og sat um tíma í siðanefnd Hundaræktarfélags Íslands.
Þá stofnaði Sigurður Samís, vináttufélag Sama og Íslendinga, ásamt Einari Braga skáldi árið 2003.

Eiginkona Sigurðar Helga var Herdís Pétursdóttir, f. 2. nóvember 1950, d. 18. ágúst 2012. Eftirlifandi unnusta er Marilyn Herdís Mellk. Sigurður lætur eftir sig fjögur börn, Helgu Pálínu, f. 1973; Friðjón, f. 1978; Bjarna Magnús, f. 1981 og Gunnhildi Berit, f. 1985. Einnig barnabörnin Ronju Björk (2006), Vígstein Frosta (2007), Örlyg Skjöld (2011), Dag Jóhann (2011), Benjamín Kára (2016), Herdísi Sóleyju (2021) og Breka Hrafntý (2023).

Jarðarför Sigurðar Helga verður gerð frá Hallgrímskirkju miðvikudaginn 18. september næstkomandi kl. 13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka