„Hann sturtaði úr pallinum og ók á lögreglubílinn“

Maðurinn var handtekinn í kjölfarið.
Maðurinn var handtekinn í kjölfarið. Ljósmynd/Aðsend

Ökumaður vöruflutningabíls var handtekinn í dag á Villingaholtsvegi eftir að hafa sturtað möl úr palli bílsins á veginn og keyrt að því loknu á lögreglubíl.

Í samtali við mbl.is segir Þorsteinn Kristinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, að lögregla hafi verið á veginum að sinna eftirliti með atvinnutækjum þar sem hún meðal annars kannar farm tækjanna og þyngd hans.

Þorsteinn segir engan hafa slasast.
Þorsteinn segir engan hafa slasast. Ljósmynd/Aðsend

Þar var ökumaðurinn stöðvaður og virðist hafa brugðist illa við.

„Viðbrögðin voru svona. Hann sturtaði úr pallinum og ók á lögreglubílinn,“ segir Þorsteinn.

Þannig að þeir stoppa hann þarna af því að þeir eru að sinna eftirliti og hann hefur bara tekið því svona illa, ökumaðurinn?

„Hvað það hefur verið nákvæmlega – alla vega voru viðbrögðin þessi.“

Ljósmynd/Aðsend

Enginn slasaðist

Þorsteinn segir sem betur fer engan hafa slasast við atvikið og að maðurinn hafi verið handtekinn.

„Þegar lögreglumönnum er almennt ógnað á þennan hátt og þeim sýndir einhverjir ofbeldistilburðir þá er eitt sem gerist og það er að menn eru sviptir frelsi í einhvern tíma.“

Um framhald málsins segir að farið verði nú í rannsókn og skýrslutöku og að svo verði ákvörðun tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert