Kveðst ekki hafa fengið svar við spurningunni

Þorbjörg spurði í tvígang en kveðst þó ekki hafa fengið …
Þorbjörg spurði í tvígang en kveðst þó ekki hafa fengið svar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, kveðst ekki hafa fengið svör við spurningu sinni um það hvort fyrir lægju töluleg gögn um áhrif fjárlagafrumvarpsins á verðbólgu.

Þetta segir hún í samtali við mbl.is.

Á Alþingi í dag spurði Þorbjörg Sigurð Inga Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hverjar væntingar hans væru um áhrif fjárlaga 2025 á verðbólgu.

Spurði í tvígang

Hún segir að verðbólguvæntingar séu sérstakt vandamál og þess vegna skipti máli að ríkisstjórnin sendi út skýr skilaboð um hvaða áhrif þau telja að þetta nýjasta fjárlagafrumvarp geti haft á verðbólgu.

„Ég spurði ráðherra í tvígang án þess þó að að fá fram þessi svör,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Sigurður sagði á Alþingi að við gerð fjárlaga væri byggt á opinberum gögnum þjóðhagsspám Hagstofunnar. 

„Þau gögn eru síðan akkúrat sömu gögnin og við njótum núna í fjárlagagerðinni og samkvæmt því ef þeim takti heldur áfram þá fer verðbólgan áfram lækkandi á næsta ári í þeim samantektum,“ svaraði Sigurður.

Greiðslubyrðin muni lækka um 50 þúsund

Þorbjörg spurði einnig hvort að Sigurður teldi að fjárlagafrumvarpið myndi stuðla að stýrivaxtalækkun hjá Seðlabankanum á næsta fundi þann 2. október.

Sagði Sigurður meðal annars í svari sínu:

„Í lok næsta árs verður 30 millj. kr. óverðtryggt lán, húsnæðislán búið að lækka um 50.000 í greiðslubyrði á mánuði. Þetta er nefnilega allt að koma.“

Sigurður Ingi sagði fjárlögin „styðja við þær væntingar að verðbólgan …
Sigurður Ingi sagði fjárlögin „styðja við þær væntingar að verðbólgan sé að fara niður.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þá eru það stórpólitísk tíðindi“

Þorbjörg kom aftur upp í pontu til að veita andsvar og spurði á ný upphaflegu spurninguna en bætti því þó við að svar Sigurðar við seinni spurningunni, er varðar stýrivexti, kæmi henni á óvart.

„Telur ráðherra að þetta fjárlagafrumvarp hans muni hafa áhrif og stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans 2. október? Ég heyri hann nefna lok næsta árs. Það eru tíðindi. Ef það eru væntingarnar, að við séum fyrst í lok næsta árs að sjá breytingar á vaxtastigi í landinu þá eru það stórpólitísk tíðindi,“ sagði hún.

Sigurður sagði Þorbjörgu vera að stunda útúrsnúning, sem hann þekkti hana ekki fyrir, en bætti svo við:

„Ef ég hef verið óskýr þá ætla ég að segja: Þetta er eitt af þeim dæmum sem eru sönnun þess hvað í krónutölum er að gerast. Við erum að byggja á opinberum spám. Spá Seðlabankans liggur fyrir, við birtum hana. Það eru þær væntingar sem við höfðum,“ sagði Sigurður meðal annars.

„Erum að styðja við þær væntingar að verðbólgan sé að fara niður“

Hann sagði hlutverk ríkisfjármálanna fyrst og fremst vera að stjórna því að fjármagna mikilvæga hluti í kerfinu og tryggja.

Þegar það eigi við, þá eigi ríkisfjármálin að styðja peningastefnu Seðlabankans. Hann sagði að nú væri verið að minnka umsvif ríkisins fimmta árið í röð.

„Ég veit að þetta er ekki það sem háttvirtur þingmaður og hennar flokkur hefur verið að predika. En fimmta árið í röð eru minni umsvif í hlutfalli af landsframleiðslu fimmta árið í röð. Við erum að styðja við þær væntingar að verðbólgan sé að fara niður,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert