Mega ekki trufla bílaumferð á Bíllausa daginn

Formaður Reiðhjólabænda segir yfirvöld telja of mikið vesen að loka …
Formaður Reiðhjólabænda segir yfirvöld telja of mikið vesen að loka götum tímabundið fyrir reiðhjólafólk á Bíllausa D-daginn. Samsett mynd/Aðsend/Árni Sæberg

Formaður félagsskaparins Reiðhjólabænda, Birgir Birgisson, gagnrýnir að yfirvöld í borginni sjái sér ekki fært um að standa að götulokunum til að samhjólaviðburður félagsins geti farið fram á Bíllausa daginn.

Birgir segir það auðvitað grátlega kaldhæðni að ekki sé hægt að halda viðburð í tilefni Bíllausa dagsins, af því það trufli bílaumferð of mikið.

Áætlað var að áhugasamir myndu leggja í samhjólaferð í tilefni Samgönguviku frá Klambratúni, eftir lokaðri Miklubraut, Hringbraut, Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi og að Lækjartorgi.

„Við reyndum að velja tíma sem myndi ekki trufla umferð of mikið,“ segir Birgir.

Umferð aukist mikið síðan 2019

Svo heppilega vilji til að Bíllausi dagurinn fellur á sunnudag í ár og hafi skipuleggjendur ákveðið að halda viðburðinn á hádegi til að hlífa ökumönnum við lokunum yfir mesta háannatímann síðdegis.

Að sögn Birgis hefði það ekki verið í fyrsta sinn sem slíkur viðburður hefði farið fram í tilefni Samgönguviku, en þó í fyrsta sinn síðan árið 2019 m.a. vegna Covid og annarra þátta. Nú hafi verið kominn tími til að endurvekja viðburðinn.

Til þess að geta lokað fyrir umferð tímabundið hafi þurft að sækja um leyfi hjá Reykjavíkurborg og Vegagerðinni og hafa samráð við lögreglu.

„En mér skilst að umferð hafi aukist svo mikið síðan 2019 og það vill svo óheppilega til að framkvæmdirnar á Hlemmi hafa truflað aðra möguleika til að komast í gegnum miðbæinn,“ segir Birgir.

Reiðhjólabændur vilja endurvekja samhjólaviðburð sem síðast var haldinn árið 2019.
Reiðhjólabændur vilja endurvekja samhjólaviðburð sem síðast var haldinn árið 2019. Ljósmynd/Aðsend

„Of mikið vesen“

Þetta tvennt saman hefði orðið til þess að lokanir og umstang í kringum þær hefðu verið of kostnaðarsamar og þungar í vöfum.

Sömuleiðis hefði flækjustig verið aukið þar sem það taki sinn tíma að setja upp og taka niður götulokanir og geti tekið allt að 4-5 klukkustundir, þrátt fyrir að samhjólaferðin taki einungis um klukkustund.

„Í stuttu máli og á hreinni íslensku þá er þetta bara of mikið vesen.“

Hann skilji því vel að flækjustigið sé nokkurt. Viðburðurinn sé engu að síður bara einn dagur á ári og hafi verið haldinn áður sem hluti af Samgönguvikunni sem sé jú að frumkvæði stjórnvalda.

„Þetta kemur beinlínis frá stjórnvöldum að það að taka þátt í þessu samevrópska átaki sé góð hugmynd.“

„Brandari“ að aðeins séu þrír viðburðir

Hann segir það skjóta skökku við í ljósi þess að stjórnvöld standi að svokallaðri Samgönguviku sem sé samevrópskt átak. Nánar tiltekið sé það umhverfisráðuneytið sem standi að vikunni.

Hægt sé að skoða viðburði tengda Samgönguvikunni í hverri og einni Evrópuborg á þar til gerðri vefsíðu. Þar megi sjá hve „grátbroslega“ lítil þátttaka Íslands sé.

„Í stærri löndum þar sem er fleira fólk þá eru eðlilega fleiri viðburðir. En að það séu fleiri hundruð í Belgíu og bara þrír hér er náttúrulega brandari. Í litlu lýðræðisríki sem ætlar að vera kolefnishlutlaust eftir 15 ár,“ segir Birgir.

„Í því samhengi er mjög skrítið að á sunnudegi í hádeginu að það megi ekki trufla bílaumferð.“

Kynlegir kvistir

Reiðhjólabændur ætla þó ekki að láta það skemma vikuna fyrir sér, en sýning á vegum félagsins verður haldin frá og með mánudeginum í Tjarnarsalnum í Ráðhúsinu.

„Við erum að setja upp sýningu á öðruvísi og áhugaverðum reiðhjólum,“ segir Birgir.

„Þetta eru svona skrítnir og kynlegir kvistir,“ bætir hann við en elsta hjólið á sýningunni er frá árinu 1937 og var notað af lögreglunni í Kaupmannahöfn á sínum tíma. Sömuleiðis verður eitt alfyrsta fjallahjólið sem var flutt til Íslands til sýningar auk reiðhjóls með fjórum framhjólum.

„Íslendingar eru svona að uppgötva að það er hægt að kaupa sér fjölbreytt hjól sem henta lífstíl hvers og eins þannig við vildum bara sýna að þannig hafi það alltaf verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert