Mótmæla fyrir utan Ítalíu

Frá mótmælunum á Klapparstíg nú upp úr klukkan 19.
Frá mótmælunum á Klapparstíg nú upp úr klukkan 19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stéttarfélagið Efling hefur boðað til mótmæla fyrir utan veitingahúsið Ítalíu á Frakkastíg. Mótmælin hófust klukkan 19.

„Tilefnið eru ítrekuð brot veitingamannsins Elvars Ingimarssonar, eiganda og rekstraraðila Ítalíu, gegn starfsfólki veitingastaðarins,“ segir í tilkynningu frá verkalýðsfélaginu. 

Þá segir að hátt í 40 félagsmenn Eflingar hafi leitað til stéttarfélagsins vegna kjarasamningsbrota og launaþjófnaðar á veitingahúsum Elvars. 

Tugir mála til meðferðar

„Ítrekað hafa starfsmenn verið hlunnfarnir varðandi launagreiðslur, hvað við kemur launum vegna yfirvinnu, vinnu á rauðum dögum og dagvinnu. Sömuleiðis eru dæmi um að starfsmenn hafi fengið greidd laun undir taxta. Iðulega hafa laun verið greidd of seint, aðeins hluta til eða alls ekki.“

Í tilkynningunni segir að tugir mála hafi verið til meðferðar hjá vinnuréttarsviði Eflingar vegna meintra brota Elvars og að sjö þeirra hafi verið send áfram til lögfræðiþjónustu.

Elstu málin eru frá því í ágúst 2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert