Munu afnema framlag til jöfnunar á örorkubyrði

Sigurður Ingi og Kristrún tókust á um málið á Alþingi …
Sigurður Ingi og Kristrún tókust á um málið á Alþingi í morgun. Samsett mynd/Óttar/Eggert

Í fjárlögum stendur til að lækka framlag stjórnvalda til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða um nokkra milljarða á næsta ári og afnema framlagið alfarið 2026.

Formaður Samfylkingarinnar segir að þetta muni koma harkalega niður á lífeyrissjóðum verkamanna en fjármálaráðherra segir að aðeins 40% af fjármunum renni til lífeyrissjóða sem eru raunverulega með aukna örorkubyrði. 

Samkvæmt fjárlögum fer framlagið úr sjö milljörðum á ári niður í 2,5 milljarða árið 2025. Verður það svo afnumið ári seinna.

Muni koma niður á lífeyrissjóðum verkamanna

„Lækkun og loks niðurfelling framlagsins, sem ríkisstjórnin talar fyrir í fjármálaáætlun og fjárlögum, það er aðgerð forseti sem mun að óbreyttu koma harkalega niður á lífeyrissjóðum verkamanna, lífeyrissjóðum þeirra stétta sem vinna erfiðisvinnu og slítandi störf,“ sagði Kristrún á Alþingi í umræðum um fjárlög. 

Kristrún sagði þetta gert í nafni afkomubætandi ráðstafana en að vinnandi fólk væri í reynd að borga brúsann.

„Þessi breyting hefur að jafnaði verið sett í samhengi við breytingar á örorkulífeyriskerfinu í vor. Er það í alvörunni kappsmál hjá þessari ríkisstjórn að borga fyrir breytingarnar á örorkulífeyriskerfinu með því að seilast í ellilífeyri fátækasta fólksins á Íslandi?“ spurði Kristrún.

Kerfið margfalt stærra nú en þegar framlögin hófust

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að margt hefði breyst frá árinu 2007 þegar stjórnvöld byrjuðu að veita þetta framlag í tengslum við kjarasamninga.

„Það er gott að hefja umræður um nákvæmlega þennan hlut. Á árinu 2006 var, í tengslum við kjarasamninga þegar lífeyrissjóðskerfið okkar var innan við 1000 milljarðar, samþykkt að ríkið myndi hjálpa þeim sjóðum sem væru með aukna örorkubyrði,“ sagði hann.

Hann benti á að lífeyrissjóðskerfið í dag væri að nálgast 8.000 milljarðar og því margfalt stærra en þegar framlagið hófst.

40% af fjármunum fara til sjóða með aukna byrði

„Því miður hefur það líka verið þróunin – vegna þess að menn hafa ekki tekið á þessu – að aðeins um 40% af þeim fjármunum sem ríkið er að veita í þetta kerfi fara til þeirra sjóða sem eru raunverulega með aukna byrði. 60% af upphæðinni fara til sjóða sem eru ekki með aukna byrði,“ sagði hann og bætti við:

„Á sama tíma erum við að breyta um örorkukerfi á næsta ári sem tekur gildi 1. september 25 og við erum búnir að samþykkja, þar sem við erum að setja um 18 milljarða úr ríkissjóði inn í þetta kerfi til að tryggja betri jöfnuði. Einmitt milli sjóða og fyrir þá sem eru á örorku,“ sagði Sigurður.

Hann sagði ríkið ekki ætla að skilja eftir fólk eða sjóði sem verða fyrir meiri örorkubyrði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert