Munu hefja framkvæmdir þrátt fyrir kæru

Skeiða- og Gnúpverjahreppur kærði í dag virkjunarleyfið fyrir vindorkuverinu, sem …
Skeiða- og Gnúpverjahreppur kærði í dag virkjunarleyfið fyrir vindorkuverinu, sem má þó ekki rugla saman við framkvæmdaleyfið. mbl.is/Sigurður Bogi

Landsvirkjun mun hefja framkvæmdir fyrir vindorku­verið Búr­fells­lund þrátt fyrir að Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafi kært virkjunarleyfið sem Orkustofnun veitti fyrir virkjuninni.

Framkvæmdir hefjast í lok mánaðar.

Þetta segir Þóra Arnórsdóttir, sam­skipta­stjóri Lands­virkj­un­ar, í samtali við mbl.is.

Sveit­ar­stjórn Rangárþings ytra samþykkti í gær að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi vegna vega­gerðar inn­an fram­kvæmda­svæðis ann­ars veg­ar og leyfi til upp­setn­ing­ar vinnu­búða hins veg­ar.

„Þetta eru náttúrulega gleðifregnir. Vegaframkvæmdir og undirbúningur fyrir vinnubúðir hefst væntanlega bara í lok september,“ segir Þóra í samtali við mbl.is.

Kæran sjálfstætt mál

Skeiða- og Gnúp­verja­hrepp­ur lagði svo í gær inn kæru til úr­sk­urðar­nefnd­ar um­hverf­is- og auðlinda­mála þar sem farið er fram á að virkj­un­ar­leyfi sem Orku­stofn­un gaf út 12. ágúst verði fellt úr gildi. Sveitarfélagið hafði áður gefið það út að virkjunarleyfið yrði kært.

Ætlið þið að bíða eftir því að það komi niðurstaða í það mál áður en þið hefjið framkvæmdir?

„Nei. Það er í sjálfu sér bara sjálfstætt mál og hefur sinn gang hjá úrskurðarnefndinni,“ segir Þóra.

Vindmyllur valdar í næsta mánuði

Í tilkynningu frá Landsvirkjun í gær kom fram að skipu­lags- og um­ferðar­nefnd, ásamt um­hverf­is-, há­lend­is- og sam­göngu­nefnd Rangárþings ytra, yrði falið að vinna áfram að af­greiðslu framkvæmdaleyfisumsóknarinnar í heild sinni.

Þá kom fram að útboðsferli meðal vind­myllu­fram­leiðenda væri nú á loka­metr­un­um og að gert væri ráð fyr­ir því að í októ­ber yrði ljóst hvaða vind­myllu­fram­leiðandi yrði fyr­ir val­inu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert