Ríflega 30% landsmanna brjóta lögin

Herdís Dröfn Fjeldsted sagði að mikilvægt væri að fræða neytendur …
Herdís Dröfn Fjeldsted sagði að mikilvægt væri að fræða neytendur betur um það hvað fælist í því að stela sjónvarpsefni og að sækja brotamenn til saka svo eftir sé tekið. Ljósmynd/Colourbox

Umfang og notkun ólöglegrar sjónvarpsþjónustu hér á landi er mikið áhyggjuefni að mati rétthafa. Ný könnun sem gerð var í vor sýnir að ríflega 30% landsmanna hlaða niður eða streyma sjónvarpsefni með ólöglegum hætti.

Hlutfall notenda er hæst meðal ungs fólks. Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnu um ólöglega dreifingu sjónvarpsefnis sem Sýn hélt í síðustu viku.

Fjöldi erlendra sérfræðinga tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni en aðalræðumaður var Michael Lund, öryggisstjóri hjá Nordic Content Protection (NCP) sem eru félagasamtök sem starfa fyrir sjónvarpsiðnaðinn á Norðurlöndunum.

Auk hans tóku til máls Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri Sýnar og Kristjana Thors Brynjólfsdóttir þróunarstjóri fyrirtækisins. Herdís lagði á það áherslu í máli sínu að þjófnaður á sjónvarpsefni væri samfélagslegt vandamál.

Hún sagði að mikilvægt væri að fræða neytendur betur um það hvað fælist í því að stela sjónvarpsefni og að sækja brotamenn til saka svo eftir sé tekið. Kristjana kynnti niðurstöður úr könnun Gallup frá því í vor þar sem sést vel hversu margir kjósa að stela sjónvarpsefni.

Graf/mbl.is

Stór glæpasamtök hagnast

Eins og komið hefur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í ár er afar auðvelt að verða sér úti um svokallaða IPTV-áskrift. Við kaup á nýjum sjónvarpstækjum er eitt það fyrsta sem fólk sér hnappur til að sækja slík öpp sem færa manni allar heimsins sjónvarpsstöðvar fyrir lítinn pening.

Valið reynist mörgum auðvelt enda kosta áskriftir að IPTV-þjónustum jafnan um tvö þúsund krónur á mánuði, aðeins brot af hefðbundnum sjónvarpsáskriftum. Áskriftarverðið rennur hins vegar í vasa þeirra sem stela efninu af rétthöfum og þjófarnir eru í mörgum tilvikum stór erlend glæpasamtök.

Graf/mbl.is

Lágt verð fyrir góða vöru

Michael Lund hefur starfað um nokkurra ára skeið hjá NCP en var áður hjá lögreglunni í Danmörku og fékkst við netglæpi. Hann sagði frá því í ræðu sinni að nýverið hefði hann rekist á skýrslu frá 1997 um stöðu mála í baráttunni við þjófnað á sjónvarpsefni. Þótt aðstæður séu aðrar í dag taldi hann þessa upprifjun vera ágætisáminningu um umfang vandans og að hann hverfi ekki á morgun. Þá, eins og nú, kosti þjófnaður á sjónvarpsefni rétthafa mikið og samfélagið verði af skattgreiðslum svo dæmi sé tekið.

Lund lagði raunar áherslu á það að baráttan væri erfið vegna þess að IPTV-þjónustan væri „góð vara“. Þar fái kaupendur 200 þúsund sjónvarpsstöðvar en greiði ekki nema sem nemur 20% af áskriftarverði hefðbundinna sjónvarpsstöðva á Norðurlöndunum.

Salan fer að hans sögn víða fram, bæði í gegnum hefðbundnar vefsíður en einnig í gegnum hópa og undirsíður á samfélagsmiðlum. Fyrir nokkrum árum hafi margir selt í gegnum Facebook en tekist hafi að ná eyrum stjórnenda Facebook. Þeir hafi gripið til aðgerða og í kjölfarið hafi það minnkað til muna.

Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert