Stikla: CCP kynnir nýjan leik

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Ljósmynd/Aðsend

Tölvu­leikja­fram­leiðand­inn CCP hef­ur boðað út­gáfu á nýj­um tölvu­leik sem mun bera heitið EVE Frontier.

Kem­ur þetta fram í til­kynn­ingu frá fyr­ir­tæk­inu.

Seg­ir í til­kynn­ing­unni að leik­ur­inn hafi verið í smíðum í höfuðstöðvum fyr­ir­tæk­is­ins í Grósku, Vatns­mýri, und­an­far­in tvö ár og að í kynn­ing­arstiklu sé vænt­an­leg­um spil­ur­um gef­in inn­sýn í hinn opna, djúpa og víðfeðma, en jafn­framt harðneskju­lega heim EVE Frontier.

„EVE Frontier deil­ir sögu­heimi og tíma með EVE On­line, fyrsta leik CCP, sem leit dags­ins ljós árið 2003. Spil­ar­ar hafa nær full­komið frelsi til að kanna um þúsund­ir fjar­lægra sól­kerfa, 23 þúsund ár í framtíðinni, en að öðru leyti er eng­in bein teng­ing á milli leikj­anna tveggja,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Kem­ur þar einnig fram að CCP hafi farið ótroðnar slóðir í ýmsu sem teng­ist leikja­hönn­un og þróun sta­f­ræns hag­kerf­is EVE Frontier, sem m.a. bygg­ir á bálka­keðju­tækni (e. blockchain).

60 millj­ón­ir spilað leiki CCP frá út­gáfu fyrsta leiks

„EVE Frontier kem­ur með nýja nálg­un í heimi survi­val-leikja þar sem spil­ar­arn­ir sjálf­ir byggja upp innviði leiks­ins, hag­kerfi og sam­fé­lög í risa­vöxn­um heimi. Við erum að búa til upp­lif­un þar sem ákv­arðanir hafa áhrif, og af­leiðing­arn­ar geta orðið stjarn­fræðileg­ar,“ er haft eft­ir Hilm­ari Veig­ari Pét­urs­syni, for­stjóra CCP.

„CCP hef­ur í rúm­lega ald­ar­fjórðung verið í far­ar­broddi sta­f­rænna sýnd­ar­heima. Fyr­ir­tækið var stofnað í Reykja­vík árið 1997 og starf­ræk­ir einnig starfstöðvar í London og Shang­hai. Hjá CCP starfa 423 starfs­menn af 29 þjóðern­um. Þar af eru starfs­menn á Íslandi rúm­lega þrjú hundruð tals­ins og um sex­tíu þeirra koma beint að gerð EVE Frontier. Rúm­lega 60 millj­ón­ir hafa spilað leiki CCP frá út­gáfu fyrsta leiks fyr­ir­tæk­is­ins árið 2003,“ seg­ir enn frem­ur í til­kynn­ing­unni. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert