Stikla: CCP kynnir nýjan leik

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Ljósmynd/Aðsend

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur boðað útgáfu á nýjum tölvuleik sem mun bera heitið EVE Frontier.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Segir í tilkynningunni að leikurinn hafi verið í smíðum í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Grósku, Vatnsmýri, undanfarin tvö ár og að í kynningarstiklu sé væntanlegum spilurum gefin innsýn í hinn opna, djúpa og víðfeðma, en jafnframt harðneskjulega heim EVE Frontier.

„EVE Frontier deilir söguheimi og tíma með EVE Online, fyrsta leik CCP, sem leit dagsins ljós árið 2003. Spilarar hafa nær fullkomið frelsi til að kanna um þúsundir fjarlægra sólkerfa, 23 þúsund ár í framtíðinni, en að öðru leyti er engin bein tenging á milli leikjanna tveggja,“ segir í tilkynningunni.

Kemur þar einnig fram að CCP hafi farið ótroðnar slóðir í ýmsu sem tengist leikjahönnun og þróun stafræns hagkerfis EVE Frontier, sem m.a. byggir á bálkakeðjutækni (e. blockchain).

60 milljónir spilað leiki CCP frá útgáfu fyrsta leiks

„EVE Frontier kemur með nýja nálgun í heimi survival-leikja þar sem spilararnir sjálfir byggja upp innviði leiksins, hagkerfi og samfélög í risavöxnum heimi. Við erum að búa til upplifun þar sem ákvarðanir hafa áhrif, og afleiðingarnar geta orðið stjarnfræðilegar,“ er haft eftir Hilmari Veigari Péturssyni, forstjóra CCP.

„CCP hefur í rúmlega aldarfjórðung verið í fararbroddi stafrænna sýndarheima. Fyrirtækið var stofnað í Reykjavík árið 1997 og starfrækir einnig starfstöðvar í London og Shanghai. Hjá CCP starfa 423 starfsmenn af 29 þjóðernum. Þar af eru starfsmenn á Íslandi rúmlega þrjú hundruð talsins og um sextíu þeirra koma beint að gerð EVE Frontier. Rúmlega 60 milljónir hafa spilað leiki CCP frá útgáfu fyrsta leiks fyrirtækisins árið 2003,“ segir enn fremur í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert