Vara við snjóflóðahættu og bröttum hlíðum

Varast skal brattar og snæviþaktar hlíðar.
Varast skal brattar og snæviþaktar hlíðar. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands

Í ljósi þess að næstu daga verða göngur á mörgum svæðum á Tröllaskaga og Flateyjarskaga hvetur Veðurstofa Íslands gangnamenn til að hafa snjóflóðahættu ofarlega í huga og varast brattar og snæviþaktar hlíðar.

„Þó líkur á náttúrulegum snjóflóðum hafi minnkað mikið eftir að veðrinu slotaði getur enn verið hætta á að göngumenn setji af stað snjóflóð sjálfir,“ segir í færslunni.

Spáð er rigningu á laugardag og fram á sunnudag og gæti bætt í snjó í efstu fjöll. Töluvert snjóaði til fjalla í áhlaupinu sem varð fyrr í vikunni og snjóflóð féllu.

„Flekahlaup hafa sést í Svarfaðardal og Héðinsfirði, sum bresta á auðri jörð neðantil í hlíðum þar sem gróður er meiri en einnig hafa farið flekar frá fjallsbrúnum niður í brekkurætur og skafið í upptökin svo þau sjást ekki lengur. Sólbráð næstu daga getur orsakað fleiri flekahlaup sem gætu verið hættuleg göngufólki,“ segir einnig í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert