Verður alls konar bras að ná kindum úr fjöllunum

Sauðfé í Reykjarétt í Ólafsfirði.
Sauðfé í Reykjarétt í Ólafsfirði. Ljósmynd/Íris Jónsdóttir

„Það verður alls konar bras næstu daga að ná kindum úr fjöllunum. Við ætluðum að smala núna um helgina,“ segir Jón Elvar Númason, sauðfjárbóndi á Þrasastöðum í Fljótum, í samtali við Morgunblaðið.

Á Þrasastöðum rekur Jón eitt stærsta sauðfjárbú landsins með um 800 fjár. Aftakaveður gerði á Norðurlandi og víðar um helgina sem hefur nú slotað að mestu.

„Ég fór daginn fyrir óveðrið og náði að ýta þeim niður eins og ég gat. Núna er bara kafsnjór, sennilega um hálfur metri.“

Jón á ekki von á því að neitt hafi fennt í kaf en segir þó líkur á að eitthvað sé fast í snjó og á von á að verða fyrir afföllum. „Það er samt erfitt að segja hvernig þetta fer, það kemur betur í ljós eftir daginn í dag.“

Notar þyrlu nágrannanna

Til stendur að líta eftir fénu úr lofti en Jón er það lánsamur að hafa afnot af þyrlu nágranna sinna að Deplum. Segir hann muna miklu að geta staðsett féð þannig og geta gert út leiðangur beint á staðinn.

Aðspurður segir hann að erfitt hafi verið bregðast við veðurspánni. „Þótt það hafi spáð norðanátt þá var það ekki fyrr en í mesta lagi tveimur dögum fyrir óveðrið sem talað var um að hún yrði þetta grimm.“

Jón á ekki von á að snjóa leysi á Lágheiðinni, það sé í raun bara kominn vetur. „Það er ekki nema það geri bara mikil hlýindi og asahláku. Sumarið kom ekki neitt. Það snjóaði í fjöll í hverjum einasta mánuði.“

Fjárhagslegt tjón er viðbúið en aðeins er um vika í að senda átti lömb til slátrunar. „Þetta er helvíti fúlt, við fáum svona 15 þúsund kall fyrir gott lamb svo það er fljótt að telja ef afföllin verða mikil.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka