Vilja veita „nauðsynlegt aðhald“

Guðrún segir Krónuna aðeins kaupa snyrtivörur af viðurkenndum heildsölum og …
Guðrún segir Krónuna aðeins kaupa snyrtivörur af viðurkenndum heildsölum og dreifingaraðilum. mbl.is/Árni Sæberg

Krónan selur einungis snyrtivörur frá viðurkenndum dreifingaraðilum sem geta staðfest uppruna vara og tryggt að gæðin séu í fyrirrúmi. Verslunin kaupir vörur bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Einu sinni hefur það komið upp að snyrtivara sem Krónan seldi kom ekki frá viðurkenndum dreifingaraðila. Í kjölfarið var varan tekin úr sölu.

Þetta segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Þegar talað er um að vara komi ekki frá viðurkenndum dreifingaraðila eða framleiðanda sjálfum vísar það til þess að varan komi af gráum markaði, þ.e. frá aðila sem ekki hefur leyfi framleiðanda til að selja hana. Ekki er hægt að full­yrða að vör­ur sem fengn­ar eru af grá­um markaði séu óöruggar fyr­ir neyt­end­ur. Hins veg­ar get­ur verið auk­in áhætta ef aðfanga­keðjur eru lang­ar og óljós­ar. 

Innkaup erlendis frá lykilatriði

Sig­urður Reyn­alds­son, fram­kvæmda­stjóri Hag­kaups, sagði við mbl.is um liðna helgi að Hagkaup selji einungis snyrtivörur sem koma frá viður­kennd­um söluaðilum á Íslandi. 

Ólíkt Hagkaup verslar Krónan bæði við innlenda og erlenda söluaðila. Guðrún segir Krónuna kaupa vörur frá erlendum söluaðilum til að geta boðið samkeppnishæf verð.

„Innkaup Krónunnar af erlendum aðilum eru mikilvæg til að veita innlendum heildsölum nauðsynlegt aðhald, ef þessa nyti ekki erum við fullviss að vöruverð á snyrtivörum væri mun hærra í Krónunni en raunin er. Snyrtivörumarkaðurinn hefur í raun þróast í sama farveg og matvörumarkaðurinn, þar sem aðgengi að þekktum vörumerkjum hefur stórbatnað og innkaup erlendis frá hafa verið lykilatriði til að stuðla að hagkvæmara vöruverði.“ 

Krónan vill bjóða samkeppnishæf verð á snyrtivörum.
Krónan vill bjóða samkeppnishæf verð á snyrtivörum. Mynd/Krónan

„Við brugðumst strax við því“

Að sögn Guðrúnar er rík áherslu lögð á að þær snyrtivörur sem Krónan selur séu öruggar fyrir neytendur og að uppruni þeirra sé staðfestur. Þá fylgi samstarfsaðilar Krónunnar ströngum reglum. 

„Við kaupum snyrtivörur eingöngu af viðurkenndum heildsölum og dreifingaraðilum sem geta staðfest uppruna vörunnar og tryggt að gæðin séu í fyrirrúmi, bæði hérlendis sem og erlendis. Okkar samstarfsaðilar eru með beina samninga við framleiðendur og viðurkennda dreifingaraðila og fylgja ströngum reglum, bæði hvað varðar okkar kröfur til þeirra sem og kröfur frá framleiðendum,“ segir Guðrún. 

Einu sinni hefur það gerst að birgi sem Krónan verslaði við hafði ekki tilskilin leyfi til að dreifa vöru sem seld hafði verið í verslunum Krónunnar. 

„Við eigum til eitt dæmi um vöru þar sem kom í ljós að birgir okkar hafði ekki tilskilin leyfi framleiðanda til að dreifa vörunni. Í því tilfelli var varan tekin úr sölu ásamt því að lokað var á viðskipti frá þeim birgja. Þetta var afmarkað tilfelli og við brugðumst strax við því,“ segir Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert