Jaðrar þess hrauns sem rann í síðustu jarðeldum, norðaustur af Fagradalsfjalli, eru nú 2,7 kílómetra frá Reykjanesbraut þar sem þeir liggja nyrst.
Fari svo að það gjósi aftur í grennd við þá gíga sem lengst voru virkir í nýliðnu gosi gæti glóandi hraunið náð Reykjanesbraut á innan við degi eða jafnvel enn skemmri tíma.
Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Ef Reykjanesbrautin lokist þurfi viðbragðsaðilar að hugsa fyrir því hvernig koma eigi umferð til Keflavíkurflugvallar. Reykjavíkurflugvöllur beri engan veginn þá flugumferð.
„Við getum ekki fullyrt hvort gosstöðvarnar eru að færast norðar, en það eru vísbendingar um að virknin sé að færast norður fyrir vatnaskil,“ segir Þorvaldur í samtali við Morgunblaðið í dag.
„Ef gossprungan opnast á svipuðum slóðum og gígarnir sem voru virkir sem lengst í síðasta gosi, þá er greið leið fyrir hraunrennslið niður að Reykjanesbraut. Nýja hraunið auðveldar flæði á hraunrennslinu í þessa átt, gjósi næst á þessum slóðum.“
Þorvaldur segir að stefnan á þeirri sprungu sem gaus úr sveigi til austurs við norðurmörk gosbeltisins og ekki séu sprungur norðan við Reykjanesbrautina, sem sé jákvætt.
Sprungan nái því ekki norður að Vogum á Vatnsleysuströnd. Sama eigi við um aðra þéttbýlisstaði eins og Hafnarfjörð. Þangað séu engar líkur á að gossprungan teygi sig.
Spurður út í áform um flugvöll í Hvassahrauni segir hann enga skynsemi í að byggja alþjóðaflugvöll á svæði sem sé í jafnvel meiri hættu en Keflavíkurflugvöllur.
Áskrifendur geta fundið ítarlegri umfjöllun í Morgunblaðinu.