Brotið blað í veiðistjórnun fyrir rjúpu

Undirritun stjórnunar- og verndaráætlunar rjúpu. Fv. Stefán Guðmundsson, ráðuneytisstjóri umhverfis-, …
Undirritun stjórnunar- og verndaráætlunar rjúpu. Fv. Stefán Guðmundsson, ráðuneytisstjóri umhverfis-, orku og loftslagráðuneytisins, Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirritað stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu. Þetta er í fyrsta skipti sem slík áætlun er gefin út fyrir dýrastofn á Íslandi. Segir ráðherrann að með undirrituninni sé brotið blað í veiðistjórnun fyrir rjúpu.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Segir þar að áætlunin feli í sér nýtt kerfi veiðistjórnunar þar sem landinu er skipt í sex hluta og veiðistjórnunin er svæðisbundin. Einnig hafi verið þróuð ný stofnlíkön sem munu reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils á hverju svæði.

Þá sé áætlunin mikilvægur liður í því að stuðla að því að veiðar séu sjálfbærar og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi.

Enn fremur er markmiðið með áætluninni að stuðla að gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni veiðistjórnunar á rjúpu svo traust ríki á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings.

Um mikið framfaraskref að ræða

Í tilkynningunni kemur fram að áætlunin sé afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar.

Þá hafi samstarfshópurinn notið aðstoðar frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.

„Við undirritun stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpu er brotið blað í veiðistjórnun fyrir rjúpu. Veiðistjórnunarkerfið byggist á sterkum vísindalegum grunni og aðferðafræði þar sem þekking og álit aðila hefur verið tekin með í reikninginn. Stefnt er að því að þessi tegund veiðistjórnunar tryggi stöðu rjúpunnar sem veiðibráðar en á sama tíma stöðu stofnsins í íslenskri náttúru,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem einnig undirstrikar þakkalæti fyrir þá vinnu sem unnin var af samstarfshópnum og Dr. Fred A. Johnson.

„Í áætluninni felst fyrirsjáanleiki sem oft hefur vantað þegar veiðimenn hafa undirbúið sig fyrir ferðir sínar út í íslenska náttúru. Á heildina litið er því um mikið framfaraskref að ræða í þessum málum,“ segir Guðlaugur enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert