Aukið samstarf Bandaríkjanna og Íslands, m.a. á sviðum tækni og nýsköpunar, og tvíhliða samskipti þjóðanna voru á meðal umræðuefna á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Kurt M. Campbell, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fram fór í utanríkisráðuneytinu í morgun.
Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu kemur fram að ráðherrarnir hafi einnig rætt átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, málefni Úkraínu og stöðu mála á því svæði sem nefnt er Indó- Kyrrahafssvæðið og nær yfir bæði Indlandshaf og Kyrrahaf.
„Bandaríkin eru ein af okkar helstu vinaþjóðum og því er alltaf ánægjulegt að taka á móti fulltrúum þeirra hér á Íslandi,“ segir Þórdís Kolbrún í tilkynningunni.
„Koma bandaríska varautanríkisráðherrans til landsins endurspeglar það nána samstarf sem við eigum við Bandaríkin á nær öllum sviðum utanríkis- og varnarmála. Bandaríkin hafa lengi verið stærsta viðskiptaland Íslands, samstarf okkar á sviði varnarmála byggir á traustum grunni enda deilum við sameiginlegum varnarhagsmunum á Norður-Atlantshafi og erum náin bandalagsríki í Atlantshafsbandalaginu.“
Campbell sagði við fjölmiðla eftir fundinn að heimsókn sendinefndar sinnar til Íslands hefði verið hápunktur ferðalagsins, en sendinefndin hefur undanfarna daga heimsótt Belgíu, Bretland, Litháen og svo að lokum Ísland.
Hrósaði Campbell Íslendingum og Þórdísi Kolbrúnu sérstaklega fyrir góð og traust samskipti við Bandaríkin, og sagði hann að ríkin tvö vildu byggja ofan á þessum grunni sem væri þegar mjög traustur.
Á meðal þess sem þau ræddu á fundi sínum var hvernig ríkin tvö gætu starfað saman betur, ekki síst hvað varðaði málefni Indó-Kyrrahafsins, og nefndi Campbell að hann hefði boðið Þórdísi Kolbrúnu til Hawaii til fundar, en þar munu nokkur helstu ríki Evrópu og Atlantshafsbandalagsins koma saman til þess að ræða stöðuna á Indó-Kyrrahafssvæðinu.
Campbell nefndi líka að Bandaríkjamenn hefðu tekið eftir þeirri spennandi þróun sem væri í gangi hér á landi á sviði hátækni og að þar væri ríkur akur fyrir samstarf ríkjanna tveggja.
Campbell hrósaði líka Þórdísi Kolbrúnu sérstaklega fyrir einarða afstöðu sína í málefnum Úkraínu. Hefði hún hvatt Bandaríkjamenn til þess að standa öxl við öxl með Úkraínumönnum og væri það ætlun Bandaríkjamanna að gera það.
Í stuttri heimsókn sinni til landsins sótti Campbell auk þess fund utanríkismálanefndar Alþingis og heimsótti öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli til að kynna sér aðstæður.