„Eins og að pissa í skóinn sinn“

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er því svolítið eins og að pissa í skóinn sinn að halda að með því að hækka skattinn að þá ætli ríkið að njóta hærri tekna,“ sagði alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, Teitur Björn Einarsson. Hann kallaði eftir hagfræðilegri greiningu frá matvælaráðherra á Alþingi í gær er hækkun veiðigjalds var rædd.

„Í fjárlagafrumvarpinu eru kynnt áform um að veiðigjald verði hækkað um tvo milljarða. Ég vil því nota tækifærið hér og spyrja hæstvirtan matvælaráðherra út í hina hagfræðilegu greiningu sem að hefur farið fram í matvælaráðuneytinu á áhrifum þessarar hækkunar,“ sagði Teitur og spurði jafnframt matvælaráðherra hvort greiningin yrði ekki örugglega lögð fram fyrir fjárlaganefnd við meðferð fjárlagafrumvarpsins í haust og með frumvarpinu sem kæmi í kjölfarið.

Spurði þá einnig alþingismaðurinn hvort að greining matvælaráðuneytisins rímaði við skýrslu hagfræðinganna Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar.

Greint hefur verið frá að meginniðurstaða hagfræðinganna, sem unn­in var fyr­ir Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, um áhrif veiðigjaldsins er sú að það veiki sjávarútveginn, lækki landsframleiðslu, minnki ráðstöfunartekjur heimilanna og lækki skatttekjur hins opinbera þegar til lengdar léti.

Mun ekki setja sjávarútveginn á hliðina

Bjarkey Olsen matvælaráðherra var næst í ræðustól Alþingis.

„Ég hef ekki hagfræðilega greiningu hér mér við hlið sem ég get sagt að ég geti lagt fram. Engu að síður er þetta ekki úr einhverju tómarúmi gripið frekar en þegar að veiðigjöldin hafa verið lögð á eða þeim breytt. Þá hefur það ekki verið einhver geðþóttaákvörðun á hverjum tíma,“ svaraði matvælaráðherrann.

Sagðist hún þá vita af skýrslu Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs en væri ekki búin að lesa hana.

„Það eru til alls konar greiningar innan ráðuneytisins sem ríma kannski ekki endilega við nákvæmlega þetta sem þar kemur fram en engu að síður ætla ég nú að leyfa mér að halda því fram að þetta setji sjávarútveginn ekki á hliðina, þ.e.a.s. stórútgerðina.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. mbl.is/Eyþór Árnason

Eins og að pissa í skóinn sinn

„Ég tel að það verði mjög mikilvægt að samhliða frumvarpi hér inn í þingið í haust að þá komi fram hver hagfræðileg greining er á greinina út frá þessum hækkunum og það hlýtur þá að vera gert samhliða þannig að þingheimur geti áttað sig á áhrifunum,“ sagði Teitur Björn er hann var mættur í ræðustólinn á ný og nefndi þá jafnframt niðurstöður skýrslunnar.

„Þær eru þær að það eru hagræn rök fyrir því að hækkun veiðigjalds muni minnka landsframleiðslu og þar með draga úr hagvexti og þar með rýra efnahag landsmanna. En það er meira. Hækkun veiðigjalds muni líklega einnig minnka skatttekjur hins opinbera þegar fram í sækir að öðrum kosti. Þetta er því svolítið eins og að pissa í skóinn sinn að halda að með því að hækka skattinn að þá ætli ríkið að njóta hærri tekna. Það mun á endanum hafa minni tekjur úr að spila.“

Greiningar lagðar fram með frumvarpi

„Ég ætla að leyfa mér að efast um það að þær tekjur sem við öflum fyrir ríkissjóð valdi almenningi einhverju tjóni. Ég ætla að leyfa mér líka að efast um þessa forsendu sem gefin er í þessari skýrslu þegar það er talað um að til þess að tekjurnar verði rýrari til ríkisins heldur en þær hafa verið hingað til,“ svaraði matvælaráðherrann er hún mætti í ræðustólinn.

Nefndi hún að þegar horft er til baka hafi alltaf verið ágreiningur um þegar átt hafi að breyta veiðigjöldum.

Sagði hún þá einnig að forsendurnar væru í fjármálaráðuneytinu fyrir því hvernig veiðigjöldin reiknast þó að skrifstofa sjávarútvegs hafi vissulega aðstoðað.

„En ég skal alveg taka þessa ábendingu háttvirts þingmanns varðandi greiningar og leggja þær hérna fram með frumvarpinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert