Mikill viðbúnaður var þegar kviknaði í grilli fyrir utan raðhús á Akureyri í kvöld. Búið er að slökkva allan eld og vinnur nú slökkvilið að því að reykræsta heimilið.
„Það kviknar í grilli utandyra og læsir sér í sólpall og það varð talsvert bál en það er búið að slökkva allt og verið að reykræsta íbúðina,“ segir Helgi Tulinius, varðstjóri lögreglunnar á Akureyri.
Allt tiltækt lið slökkviliðs Akureyrar var kallað út vegna eldsvoðans.
Segir Helgi að engan hafi sakað í eldsvoðanum.
Nefnir varðstjórinn að auk reykræstingarinnar sé nú verið að fylgjast með því hvort glæður séu í palli hússins.
„Þeir eru að klára vinnu þarna á vettvangi einhvern tímann fljótlega vonandi.“
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá lögreglu.