Ekkert hefur spurst til hugmynda um þyrluflugvöll á Hólmsheiði sem voru til umræðu fyrir fáeinum misserum og segir Birgir Ómar Haraldsson framkvæmdastjóri Norðurflugs að Reykjavíkurborg hafi vakið máls á möguleika þess efnis, en ekkert hafi orðið úr. Málið hafi dagað uppi.
Ekki sé fyrirstaða af hálfu Norðurflugs við að flytja þyrluflug frá Reykjavíkurflugvelli, enda verði gætt að flugöryggismálum á nýjum velli.
Nýverið voru stofnuð samtök sem berjast gegn því sem þau kalla óþarfa flug um Reykjavíkurflugvöll og er þyrluflug nefnt í því samhengi, ásamt flugi einkaþotna, kennsluflugvéla o.fl., en þó ekki áætlunarflugi innanlands, björgunarflugi eða sjúkraflugi. Flugumferð hafi slæm áhrif á íbúa í nágrenni Reykjavíkurflugvallar, trufli svefn og hafi áhrif á geðheilsu svo nokkuð sé nefnt.
Birgir sagðist í samtali við Morgunblaðið auglýsa eftir hugmyndum um þyrluflugvöll á Hólmsheiði og hver staða málsins sé hjá borginni. Fyrir er á Hólmsheiði flugvöllur fyrir smáflugvélar, en til umræðu var að byggja þyrluflugvöll í námunda við hann.
Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.