Fólk sem er í „gríðarlegri erfiðri stöðu“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á vettvangi við veitingastaðinn Ítalíu …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á vettvangi við veitingastaðinn Ítalíu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að engin viðbrögð hafi borist frá Elvari Ingimarssyni, eiganda og rekstarstjóra veitingastaðarins Ítalíu, en Efling, sem boðaði til mótmæla fyrir utan staðinn í gær, sakar hann um ítrekuð brot gegn starfsfólki veitingastaðarins.

Sólveig segir við mbl.is að haldið verði áfram að berjast í þessu máli gagnvart veitingamanninum þar til fullnægjandi niðurstaða komist í það.

„Krafa okkar eru sú að þau laun sem fólkið á inni sem hefur verið stolið af þeim verði greidd. Eftir því sem ég best veit hafa engin viðbrögð eða meldingar borist félaginu frá Elvari,“ segir Sólveig við mbl.is.

Hún segir að stjórn og trúnaðarráð félagsins sé tilbúið til að halda áfram að gera það sem það geti gert til þess að ná árangri.

Hvað verður næsta skref hjá ykkur í þessu máli?

„Við munum koma saman og ráða ráðum okkar. Við erum tilbúin til að halda áfram að mótmæla.“

Sólveig segir að síðustu tveimur árum hafi um 40 einstaklingar leitað til Eflingar en hún segist vera sannfærð um þeir séu fleiri sem þurfi að leita réttar síns.

Frá mótmælunum Eflingar í gærkvöld.
Frá mótmælunum Eflingar í gærkvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alveg pottþétt að fólk sem hefur verið á landinu en hefur svo farið frá því eftir að hafa lent í klóm Elvars. Og svo trúi ég því að það sé líka fólk sem á eftir að leita til okkar sem hafi sömu sögu að segja,“ segir Sólveig Anna.

Ein krafan upp á 1,6 milljónir

Sólveig segir að mál af þessu tagi hafi farið að berast félaginu fyrir um tveimur árum síðan. Hún segir að þetta sé mikill skaði fyrir fólkið en upphæðirnar sem um ræðir eru allt frá 100 þúsund krónum upp í upphæðir sem ná vel yfir eina milljón króna. Hún segir að ein krafan sé upp á 1,6 milljónir króna.

„Þetta er mest fólk sem hingað kemur til þess að vinna. Flestir í þessum hópi er flóttafólk sem hefur lítið sem ekkert á milli handanna og lendir þar að leiðandi í gríðarlegri erfiðri stöðu þegar það fær ekki launin sín.“

Sólveig segir að Elvar leiki þann leik að halda eftir stéttarfélagsaðildargjöldunum sem honum ber samkvæmt lögum að greiða. Þá skrái hann fólk ekki í rétt stéttarfélög. Hann hafi verið að skrá fólk í félag lykilmanna en hafi ekki skilað neinum gjöldum þangað.

„Við viljum að sjálfsögðu ná athygli Elvars en líka athygli og eyrum stjórnmálamanna og ríkisstjórnarinnar vegna þess á endanum liggur ábyrgðin hjá ríkisstjórninni og hjá Samtökum atvinnulífsins sem hafa í raun staðið í vegi fyrir því að hægt sé að innleiða lög sem gera það af verkum að launaþjófnaður sé raunverulega refsivert athæfi sem hann er í raun ekki núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert