Netöryggisgeta Íslands hefur stóraukist á undanförnum árum samkvæmt nýútgefnum netöryggisvísi Alþjóðafjarskiptasambandsins fyrir árið 2024.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Fimm svið eru mæld sem lúta að netöryggi ríkja og hlaut Ísland 99,1 stig af 100 mögulegum. Í síðustu úttekt, sem framkvæmd var árið 2020, hlaut Ísland 79,8 stig.
„Þetta er magnaður árangur sem við erum afar stolt af. Við erum nú meðal annars að uppskera eftir að hafa unnið markvisst eftir netöryggisáætlun sem við kynntum fyrir tveimur árum og höfum á þeim tíma átt í nánu samstarfi við fjölda aðila um hvað þurfi til að bæta í netöryggi.
Ég er mjög þakklát fyrir það samstarf og hversu mikinn metnað okkar samstarfsaðilar hafa sýnt í að bæta það sem að þeim snýr,“ er haft eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem jafnframt fer með málefni fjarskipta og netöryggis.
Ísland er núna í 10. sæti Evrópuþjóða á sviði netöryggis en var í 31. sæti árið 2020.
„Ísland nú í hæsta flokki, svokölluðum fyrirmyndarflokki, og telst því meðal 10% bestu ríkja af þeim 194 sem úttektin tók til,“ segir í tilkynningunni.