Krafist atvinnurekstrarbanns vegna skattsvika

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært mann fyrir meiri háttar skattalagabrot. Er hann ásakaður um að hafa komist hjá því að greiða 122,5 milljónir í virðisaukaskatt og staðgreiðslu af launum í einkahlutafélagi.

Segir í ákærunni að maðurinn hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu einkahlutafélags þar sem hann var stjórnandi á árinu 2017. Vantaldi hann virðisaukaskattskylda veltu um samtals 164,3 milljónir og stóð ekki skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur á sama tímabili.

Samtals er hann talinn hafa komist hjá því að greiða rétt rúmlega 50 milljónir í virðisaukaskatt á árinu 2017 fyrir einkahlutafélagið og 72,5 milljónir í staðgreiðslu af launum sem félagið greiddi.

Krefjast atvinnurekstrarbanns

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess einnig krafist að ákærða verði með dómi bannað að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar í slíku félagi í allt að þrjú ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert