Mikil ánægja með neyslurýmið

Neyslurýmið er opið alla virka daga milli kl. 10-16 og …
Neyslurýmið er opið alla virka daga milli kl. 10-16 og á föstudögum milli kl. 10-14. Ljósmynd/Rauði krossinn

Skjólstæðingar Ylju, neyslurýmis Rauða krossins, hafa lýst yfir mikilli ánægju með þjónustuna sem hefur verið starfrækt í Borgartúni í einn mánuð.

Í frétt á vef Rauða krossins segir að ekkert óvænt hafi komið upp á þennan fyrsta mánuð sem þjónustan hafi verið í boði.

„Það er ótrúlega góð tilfinning og mikill léttir að vera komin í fullan gang. Það hefur rosalega mikil vinna átt sér stað og við erum stolt af þessu verkefni og að geta loksins boðið upp á öruggt rými til að nota,“ segir Eva Dögg Þórsdóttir, verkefnafulltrúi í neyslurýminu.

Hún segir að í byrjun hafi fleiri komið til að nýta sér rýmið en búist hafði verið við en til þessa hafa 68 notendur komið í 263 heimsóknum.

Neyslurýmið er opið alla virka daga milli kl. 10-16 og á föstudögum milli kl. 10-14 og kemur afgreiðslutími til móts við afgreiðslutíma gistiskýlanna. Hugmyndin er að úrræðið sé í boði þegar skjólstæðingahópurinn hafi ekki í önnur hús að venda.

„Allir sem hafa komið eru ótrúlega þakklátir fyrir þessa þjónustu og það er búið að vera mjög gaman að heyra frá þeim hvað þau eru ánægð með að þetta úrræði sé loksins komið,“ segir Eva enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert