„Skulum rétt vona að brautin lokist ekki“

Enn rýkur úr hrauninu rétt sunnan við Reykjanesbraut og byggðina …
Enn rýkur úr hrauninu rétt sunnan við Reykjanesbraut og byggðina í Vogum. mbl.is/Árni Sæberg

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, vonar að það komi ekki til að Reykjanesbrautin lokist en Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hann telji að nýtt hraun gæti náð Reykjanesbrautinni á innan við degi gjósi aftur á sömu slóðum og síðast.

„Þarna kemur Þorvaldur fram með eina tilgátu af mörgum en það er auðvitað staðreynd í málinu að hraunjaðarinn er á þeim stað eins og þessu er lýst er í frétt Morgunblaðsins. Hann er að teikna upp þær aðstæður sem geta komið upp og í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það,“ segir Úlfar í samtali við mbl.is.

Þorvaldur segir að ef Reykjanesbrautin lokist þurfi viðbragðsaðilar að hugsa fyrir því hvernig koma eigi umferð til Keflavíkurflugvallar.

Yrði stærðarinnar mál

Úlfar segir að þetta sé til skoðunar hjá almannavörnum en jaðrar þess hrauns sem rann í eldgosinu norðaustur af Fagradalsfjalli, sem lauk fyrir viku síðan, eru nú 2,7 kílómetra frá Reykjanesbrautinni þar sem þeir liggja nyrst.

„Ég veit ekki nákvæmlega hvað er til ráða ef Reykjanesbrautin dettur út en við skulum rétt vona að svo gerist ekki. Það blasir hins vegar við að ef hraun myndi renna yfir Reykjanesbrautina þá yrði það stærðarinnar mál,“ segir Úlfar.

Hann segir allt til skoðunar og bendir á varnargarðana sem hafa verið reistir til að verja orkuverið í Svartsengi og Grindavíkurbæ.

„Við vitum það á sama tíma að Vegagerðin er tiltölulega fljót að leggja vegi yfir hraun eins komið hefur í ljós í þessum atburðum en það má reyndar ekki vera á hreyfingu,“ segir lögreglustjórinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert