Ríkisstjórnin og almannavarnir fylgjast áfram náið með stöðu innviða á Reykjanesskaga og stjórnvöld eru meðvituð um þá sviðsmynd að hraun gæti runnið yfir Reykjanesbrautina.
Þetta segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í morgun.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið í morgun að fari svo að það gjósi aftur í grennd við þá gíga sem lengst voru virkir í nýliðnu gosi gæti hraun náð Reykjanesbraut á innan við degi eða jafnvel enn skemmri tíma.
„Það eru auðvitað allir innviðir á Reykjanesskaganum til skoðunar í þessum skilningi og við erum mjög meðvituð um það, bæði þetta sem fjallað var um á forsíðu blaðsins í morgun og svona aðrar mögulegar ógnir ef þessi eldsumbrot halda áfram og taka þá stefnu sem þar er rætt,“ segir Svandís.
Hún segir að Vegagerðin hafi bent á þá sviðsmynd að hraun gæti runnið yfir Reykjanesbrautina og almannavarnir eru með málið á sínu borði.
Hún segir að ríkisstjórnin kappkosti verði við mati almannavarna að hverju sinni og að engin undantekning sé á því núna.
Rúmlega 30 þúsund manna samfélag og þeir sem þurfa að nota Keflavíkurflugvöll gætu ekki ferðast um Reykjanesbrautina ef hraun rynni yfir og þá væri einu vegirnir til og frá Suðurnesjum í gegnum Grindavík frá Nesvegi og Suðurstrandavegi.
Spurð hvort að það sé búið að skoða hvernig fólk kæmist til og frá segir hún:
„Þetta er náttúrulega stórt og flókið samhengi hlutana sem er allt undir þegar að svona mikilvægur innviður er annars vegar. Þannig þetta er bara metið eins og mati almannavarna vindur fram,“ segir hún.