Afar litlu munaði að rúta sem varð alelda fyrr í dag á veginum um Tungudal í Skutulsfirði hefði farið að loga í Vestfjarðagöngum að sögn sjónarvotts að atvikinu.
„Mér var svolítið brugðið þegar ég áttaði mig á því að þetta var nálægt því að vera mjög mannskætt slys inni í göngunum því að reykurinn sem kom af þessum bruna, það hefði enginn hlaupið undan þessu,“ segir Þórður Bragason sjónarvottur sem var að eigin sögn aðeins nokkrum mínútum á eftir rútunni.
Segir hann í samtali við mbl.is að eftir að veginum var lokað hafi hann ákveðið að keyra til baka og tekið þá eftir olíuslóðinni frá rútunni sem lá langleiðina upp að göngunum.
Nefnir hann að magnið af reyk hafi verið mikið og hraði reyksins einnig mikill.
„Þetta byrjar á að hreinsa út allt súrefni og svo skilar það þessum reyk til baka þannig að þetta fólk sem var í rútunni og aðrir vegfarendur, þar á meðal ég, væru allir í verulegri hættu ef að þetta hefði gerst ekki nema þá bara einni mínútu áður,“ segir Þórður sem tekur fram að þó að hann viti ekki nákvæman tíma á milli ganganna og þar sem rútan stoppaði nái það tæplega yfir mínútu.
„Hún keyrir ekki í neinar mínútur, hún keyrir í margar sekúndur, kannski mínútu frá því að hún kemur út úr göngunum og þangað til hún stoppar.“
Eins og sjá má á myndum Þórðar var strókurinn frá rútunni mjög mikill og segir hann atburðarásina hafa verið hraða. Eldurinn hafi verið aftast í rútunni þegar Þórður mætti en rútan hafi svo snögglega byrjað að brenna enda á milli.
„Það var það sem ég hugsaði á leiðinni til baka að þessi svakalegi strókur sem ég myndaði. Ef þetta ætti sér stað inni í göngunum þá stæði þetta út úr öllum götunum þremur og það er enginn á leiðinni þaðan út,“ segir Þórður og tekur undir um að afar litlu hafi mátt muna og um mikla heppni sé að ræða. Sérstaklega í ljósi þess að eldurinn hafi komið upp í akstri en segir Þórður það alveg ljóst að eldurinn hafi ekki komið upp þar sem rútan stoppaði á veginum.
Segist hann hafa heyrt í miklum sprengingum og látum þegar hann hafi verið fyrir aftan rútuna.
„Þegar loftkútarnir fyrir bremsurnar eru að springa, það voru þokkalegir hvellir.“
Þá segir Þórir að leiðsögumaðurinn eigi skilið hrós fyrir verklag sitt eftir að eldurinn kom upp.
„Mér skilst á leiðsögumanni sem ég talaði við frá sama fyrirtæki í næstu rútu á eftir að þetta hafi gengið rólega fyrir sig. Hann var mjög skipulagður sjálfur, þessi leiðsögumaður frá þessu fyrirtæki. Hann sá engan lögreglubíl þannig að hann fór í það að loka veginum og benda fólki á að fara ekki nærri og svoleiðis þannig ég verð nú að gefa þeim mikið hrós að það er hugsað fyrir öllu mögulegu sem gerist.“
mbl.is hefur einnig fengið sendar myndir frá eiginkonu Þórðar, Malíni, sem sýnir flak rútunnar eftir eldsvoðann.