„Þjóðin ber skaðann af þessari framgöngu“

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir að þjóðin beri skaða af framgöngu þeirra sem reyni að tefja fyrir grænni orkuöflun.

Skeiða- og Gnúp­verja­hrepp­ur lagði á miðvikudag inn kæru til úr­sk­urðar­nefnd­ar um­hverf­is- og auðlinda­mála þar sem farið er fram á að virkj­un­ar­leyfi sem Orku­stofn­un gaf út fyr­ir vindorku­verið Búr­fells­lund verði fellt úr gildi.

Þá hafa nátt­úru­vernd­ar­sam­tök­in Nátt­úrugrið einnig kært virkjunarleyfið sökum gildis svæðisins fyrir útivist ferðamanna.

„Það er ekki hugmyndin með kæruleiðum að menn séu að ná fram einhverjum pólitískum markmiðum. Ef að það er gerlegt og menn ná niðurstöðu í gegnum kæruleiðir til að ná pólitískum markmiðum, þá er það eitt og sér tilefni til endurskoðunar á regluverkinu,” segir Guðlaugur í samtali við mbl.is og bætir við að verið sé að endurskoða regluverkið.

Hvatinn pólitískur

Hann segir að allir sjái að við séum ekki með kæruleiðir í skipulags- og umhverfismálum til þess að aðilar geti náð fram pólitískum markmiðum.

Þannig að þú heldur að hvatinn fyrir kærunum sé pólitískur?

„Það er bara mjög skýrt. Deilum milli sveitarfélaga og sömuleiðis á milli ríkis og sveitarfélaga mun aldrei ljúka. Það er vettvangur til þess að ræða þau mál og takast á um þau og ná samkomulagi. En að búa til reglukerfi til þess að menn geti náð pólitískum markmiðum, það sér hver maður að er ekki gott.“

Grafalvarleg staða

Ertu hræddur um að málið tefjist um of? Við sáum til dæmis aðra kæru frá náttúruverndarsamtökum í morgun.

„Þetta hefur tafið um of. Fólk verður að fara að átta sig á stöðunni í grænorkumálum á Íslandi. Hún er grafalvarleg, það hefur legið fyrir lengi og ég hef lýst þessu yfir og sýnt það með gögnum, orkuspám og öðru líku.

Þjóðin ber skaðann af þessari framgöngu. Það er ábyrgðarhluti að reyna að koma í veg fyrir það að Íslendingar fái græna orku,“ segir Guðlaugur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert