Vonlaust ástand og okkur til skammar

Hinrik vill sjá meiri fagmennsku þegar kemur að leiðsögn í …
Hinrik vill sjá meiri fagmennsku þegar kemur að leiðsögn í borginni og víðar fyrir erlenda ferðamenn. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg/Eggert Jóhannesson

„Þetta er bara villta vestrið í þessu. Þetta er óreiða og í raun okkur til skammar,“ segir Hinrik Ólafsson, leiðsögumaður og leikari. Hann furðar sig á því að nánast hver sem er fái að stunda leiðsögumennsku í Reykjavík án þess að þurfa að uppfylla nein sérstök skilyrði.

Á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar skrifaði Hinrik færslu við frétt DV þar sem vitnað var í færslu Stefáns Pálssonar sagnfræðings um að víða væri pottur brotinn þegar kemur að sögugöngum í borginni.

Flestir leiðsögumenn væru „útlenskir krakkar sem hafa fengið handrit í hendur í upphafi vertíðar og endursegja svo eftir minni og skrökva ef þurfa þykir frekar en að standa á gati, því leiðbeinendurnir hafa ráðlagt þeim að gera það til að fá meira þjórfé í vasann. Það er dapurlegt að við getum ekki sinnt þessari mikilvægu þjónustu betur og að fyrirtækjunum sem eru í þessum bransa sé alveg sama,“ sagði Stefán.

Ferðamenn á gangi í Reykjavík.
Ferðamenn á gangi í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Metnaðarleysi“

Í færslu sinni talar Hinrik um „metnaðarleysi" þeirra sem bjóða upp á þjónustu sem þessa. 

„Ég varð á vegi hóps sem var í slíkri ferð með aðila sem fór stíft eftir „handriti“ – það var greinilegt á allri tjáningu við gestina. Enskan var slæm og svör við spurningum varla til að hafa eftir. „Hvað gera borgarbúar í sínum frítíma t.d. yfir veturinn?“ „Nánast ekkert, því veturinn er svo harður. Allir eru bara inni hjá sér“ var svarið hjá þessum erlenda aðila sem fór með gesti í leiðsögn um Rvk,” skrifaði hann meðal annars. 

Fólki hent út í þetta 

Hinrik, sem er menntaður leiðsögumaður, nefnir í samtali við mbl.is að erlendir ferðamenn fari helst í göngur um Reykjavík þar sem leiðsögn er veitt en sögugöngurnar séu meira fyrir Íslendinga. Sjálfur veitir hann leiðsögn bæði í Reykjavík og á hinum ýmsu ferðamannastöðum úti á landi.

mbl.is/Eyþór Árnason

„Það virðist vera þannig að oft á tíðum er fólki bara hent út í þetta án þess að hafa grunninn til að gera þetta. Í flestum borgum Evrópu máttu ekki leiðsegja nema vera með ákveðin réttindi. Við erum að setja fólk út á galeiðuna sem hefur ekki næga þekkingu,“ segir Hinrik, spurður út í leiðsögn í höfuðborginni.

Flókið í Reykjavík

Hann bendir á að nokkuð flókið sé að leiðsegja í Reykjavík. Hún sé að mörgu leyti öðruvísi en aðrar borgir. Þrátt fyrir að saga hennar sé stutt geti verið snúið að segja frá henni.

Hinrik nefnir að leiðsögumenn þurfi m.a. að vita um söguna, jarðvarmann og sjávarútveginn, svo ekki sé minnst á sundlaugamenninguna og náttúruna allt í kring.

Hinrik Ólafsson.
Hinrik Ólafsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er oft flóknara að leiðsegja í borgum en úti í náttúrunni,“ greinir hann frá. „Þeir sem koma hingað eru mjög margir ferðamenn sem búa í borgum og þeir hafa kannski fleiri spurningar á reiðum höndum en úti í náttúrunni.“

Einn með réttindi í tíu daga ferð

Hinrik segir lítil fyrirtæki sem hugsanlega hafi ekki bolmagn í að ráða menntaða leiðsögumenn helst stunda það að láta óreynt fólk leiðsegja.

Hann nefnir Ítalíu, Spán og Frakkland sem dæmi um þjóðir þar sem bannað er að leiðsegja ferðamönnum nema vera með tilskilin leyfi. Sjálfur kveðst hann hafa farið í tíu daga hringferð um Ísland í vor þar sem hann hitti aðeins einn í leiðsögn sem var með leiðsögumannaréttindi.

Hressir ferðamenn í Reykjavík.
Hressir ferðamenn í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ekki að segja að það sé besta fólkið [menntaðir leiðsögumenn] en það verður að vera einhver kvarði á þessu til að miða við. Þetta er eiginlega vonlaust ástand eins og þetta er í dag og okkur til skammar hvernig við erum að höndla þennan hluta þjónustunnar sem ég tel vera einhvern þann mikilvægasta.“

Vilja ekki breyta 

Spurður segir hann yfirvöld, þar á meðal stjórnmálamenn og hagsmunaaðila innan ferðaþjónustunnar, engan áhuga hafa á að gera bragarbót á þessu og bendir á að Félag leiðsögumanna hafi barist fyrir umbótum í fjölda ára, án árangurs.

Ferðamenn í Reykjavík.
Ferðamenn í Reykjavík. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert