Halda haustmaraþon og fjölskylduhlaup TM

Sonja Sif Jóhannsdóttir frá Frjálsíþróttasambandi Íslands, Fríða Ásgeirsdóttir frá TM …
Sonja Sif Jóhannsdóttir frá Frjálsíþróttasambandi Íslands, Fríða Ásgeirsdóttir frá TM og Friðleifur Friðleifsson frá Frjálsíþróttasambandi Íslands. TM/Guðmundur Kárason

Frjálsíþróttasamband Íslands og TM munu starfa saman að meistaramóti Íslands í maraþonhlaupi 2024 og fjölskylduhlaupi TM sem verða haldin 26. október. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar segir að í haustmaraþoninu verði keppt bæði í heilu og hálfu maraþoni eftir helstu stígum borgarinnar. Hlaupaleiðin er löglega mæld og framkvæmd samkvæmt reglugerðum Frjálsíþróttasambands Íslands.

Þá verði jafnframt fjölskylduhlaup TM sem sé um tveggja kílómetra skógarhringur í Elliðaárhólmanum fyrir börn og fjölskyldur. Þátttaka standi öllum til boða og sé gjaldfrjáls.

Fram kemur að notast verði við sama start- og marksvæði og í maraþoninu og allir þátttakendur fái verðlaun.

Ánægð með samstarfið

Fríða Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsmála og sölu hjá TM, segir fyrirtækið spennt og stolt að geta stutt við hreyfingu landsmanna og Frjálsíþróttasambandið.

„TM styrkir á hverju ári ýmis málefni sem geta haft jákvæð áhrif á samfélagið og hefur áhersla verið lögð á íþróttastarf, sér í lagi fyrir börn og unglinga. Við hlökkum sérstaklega til Fjölskylduhlaupsins, þar sem börn og fullorðnir geta gert sér glaðan dag saman í fallegri hlaupaleið í skóginum. Við lofum miklu fjöri,“ er haft eftir henni í tilkynningunni.

„Við hjá FRÍ erum sérlega ánægð með samstarfið. Í þessum viðburði tengjum við saman allan aldursskalann, í einstöku umhverfi Elliðaárdalsins. Þá er ekki síður gleðilegt að svo öflugur samstarfsaðili eins og TM deili með okkur áhuganum á að efla hlaup á Íslandi,“ er haft eftir Friðleifi Friðleifssyni, hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert