„Heiðra þá sem koma að þjónustu langveikra barna“

Ingólfur Rögnvaldsson hlaut verðlaunin í ár.
Ingólfur Rögnvaldsson hlaut verðlaunin í ár. Ljósmynd/Rakel Ósk Sigurðadóttir

Ingólfur Rögnvaldsson barnahjartalæknir hlaut Míuverðlaunin sem voru afhent í fimmta sinn við hátíðlega athöfn á Mengi, í miðbæ Reykjavíkur, á fimmtudag. Tíu heilbrigðisstarfsmenn sem vinna með langveikum börnum voru heiðraðir á viðburðinum.

Míuverðlaunin eru á vegum góðgerðarfélagsins Miu Magic sem einbeitir sér að því að gleðja langveik börn og foreldra þeirra ásamt því að gefa út fræðslubækur.

Tuttugu tilnefndir í ár

„Míuverðlaunin eru verðlaun til að heiðra þá sem koma að þjónustu langveikra barna á einn eða annan hátt. Einhver sem hefur hjálpað eða stutt við þig og þína fjölskyldu á erfiðum tíma. Það sem þeim finnst vera „bara vinnan sín“ getur skipt sköpum fyrir aðstandendur langveikra barna og börnin sjálf. Hægt er að tilnefna heilbrigðisstarfsmann í hvaða starfsstétt sem er, hvar á landinu sem er,“ er haft eftir Þórunni G. Evu Pálsdóttur, stofnanda Miu Magic, í tilkynningu um verðlaunin.

Segir þar enn fremur að tuttugu heilbrigðisstarfsmenn hafi verið tilnefndir í ár og valnefnd Míuverðlaunanna valdi svo topp tíu hópinn sem mættur var á Mengi á fimmtudagskvöld.

Trúðavaktin veitir hér Ingólfi verðlaunin.
Trúðavaktin veitir hér Ingólfi verðlaunin. Ljósmynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Tilnefningar koma frá börnum og foreldrum

Mikil spenna var í loftinu og var það Ingólfur Rögnvaldsson, barnahjartalæknir á Barnaspítala Hringsins og Domus Medica, sem hlaut Míuverðlaunin að þessu sinni.

Tilnefningar til Míuverðlauna koma frá börnum með langvinn veikindi og foreldrum þeirra og er greinilegt að Ingólfur leggur mikið á sig við að veita þá bestu þjónustu sem hann getur.

Kemur t.a.m. fram í tilnefningu að hann sé afar persónulegur og leggi sig allan fram í að veita ekki bara barninu bestu mögulegu þjónustu heldur einnig foreldrunum.

„Við höfum óskert aðgengi að hjartalækni allan sólarhringinn með einu símtali! Við viljum meina að ef það væri ekki fyrir hann þá væri lífið ekki svona auðvelt og fallegt, hann er gull af manni sem hefur svo sannarlega gert þetta ferli bærilegra! Við Íslendingar erum einstaklega heppin að hafa hann hér á landi,“ segir enn fremur í tilnefningunni.

Tónlistarkonan Sigga Ózk sá um tónlistaratriði.
Tónlistarkonan Sigga Ózk sá um tónlistaratriði. Ljósmynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Í tilkynningu góðgerðarfélagsins segir að Ingólfur hafi unnið á Barnaspítala Hringsins síðustu 10 ár, sem og reglulega leyst af barnadeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Kemur þá fram í tilkynningunni að sjúkrahústrúðarnir, þekktir sem Trúðavaktin, hafi séð um afhendingu Míuverðlaunanna í ár og að verðlaunagripurinn hafi verið hannaður af íslenska listamanninum Óla Hilm.

Er verðlaunagripurinn kertastjaki, sem prýðir orðið „hugrekki“ sem hefur verið einkennisorð Miu Magic og er tekið úr fyrstu bókinni, Mía fær lyfjabrunn.

Fulltrúar Trúðavaktarinnar, Afi og Ljós.
Fulltrúar Trúðavaktarinnar, Afi og Ljós. Ljósmynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Stofnaði félagið í kjölfar bókar um Míu

Stofnandi félagsins, Þórunn Eva, skrifaði bókina Mía fær lyfjabrunn en hugmyndin að bókinni varð til þegar hún var að gera lokaverkefnið sitt í sjúkraliðanáminu vorið 2019.

Þórunn stofnaði svo góðgerðarfélagið Mia Magic í kjölfarið. Samtökin gefa langveikum börnum og foreldrum þeirra Míubox með gjöfum einu sinni í mánuði. Öll Míuboxin eru hönnuð út frá þeim einstaklingi sem fær þau afhent og því er hvert og eitt Míubox afar sérstakt rétt eins og sá einstaklingur sem fær það afhent.

Verðlaunagripurinn. Kertastjakinn er hannaður af íslenska listamanninum Óla Hilm og …
Verðlaunagripurinn. Kertastjakinn er hannaður af íslenska listamanninum Óla Hilm og prýðir orðið „hugrekki“ sem hefur verið einkennisorð Míu Magic og er tekið úr fyrstu bókinni, Mía fær lyfjabrunn. Ljósmynd/Rakel Ósk Sigurðardóttir
Þórunn Eva er stofnandi Míu Magic og rithöfundur fræðslubókanna um …
Þórunn Eva er stofnandi Míu Magic og rithöfundur fræðslubókanna um Míu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert