Hvernig veldur lúsmý ofnæmisviðbrögðum?

Erling Ólafsson skordýrafræðingur, sem ósjaldan hefur útskýrt heim skordýranna fyrir …
Erling Ólafsson skordýrafræðingur, sem ósjaldan hefur útskýrt heim skordýranna fyrir lesendum Morgunblaðsins og mbl.is, tók þessa mynd af hinu örsmáa lúsmýi. Ljósmynd/Erling Ólafsson

„Blóðsjúgandi skordýr geta bitið oftar en einu sinni,“ skrifar Gísli Már Gíslason, prófessor emeritus í líffræði við Háskóla Íslands, í grein sinni um lúsmý og ofnæmisviðbrögð á Vísindavef skólans.

Fer prófessorinn víða í skrifum sínum enda fýsti spyrjanda að vita hvað það væri í bitum lúsmýs og moskítóflugna sem ylli ofnæmisviðbrögðum, hve mikið magn vökva hver fluga gæfi frá sér, hvort sama fluga gæti bitið oft á sama tíma og að lokum hvort algengt væri að fólk myndaði ónæmi fyrir bitunum.

„Algengustu skordýr sem sjúga blóð úr spendýrum og fuglum á Íslandi eru lýs, flær, veggjalýs, bitmý og lúsmý. Auk þess eru moskítóflugur öflugar blóðsugur um allan heim, en þær lifa ekki á Íslandi,“ skrifar Gísli.

Spýta munnvatni í skinnið

Heldur líffræðingurinn óhugnanlegum lýsingum sínum á blóðsugum áfram og greinir frá því að þegar skordýr bíti eða stingi spendýr og fugla gefi þau frá sér efni sem komi í veg fyrir að blóð storkni á meðan þau sjúga það úr fórnarlambi sínu.

„Lúsmý, lýs, flær og veggjalýs stinga með munnpörtum, sem mynda rana (lat. roboscis) í skinnið, en bitmý bítur með kjálkum í það og myndar sár sem blóðið vætlar út í. Öll spýta þau munnvatni inn í skinnið, sem kemur í veg fyrir blóðstorknun, en veldur jafnframt ónæmisviðbrögðum, eins og bólgum og kláða. Það gerist þegar ónæmiskerfi hýsilsins gefur frá sér histamín,“ útskýrir höfundur því næst á því alþýðumáli sem einkennir fræðimenn sem eiga auðvelt með að útskýra fræði sín, jafnvel þótt snúin séu, fyrir til dæmis nemendum.

Þegar moskítóflugur stinga hýsil segir Gísli þær spýta örlitlu munnvatni, minna en einum þúsundasta úr millilítra, og lúsmý að öllum líkindum enn minna magni, enda munnvatnskirtlar þess töluvert minni en moskítóflugunnar.

Geta bitið oftar en einu sinni

Hann segir flesta fá óveruleg viðbrögð, aðrir geti hins vegar fengið svo heiftarleg viðbrögð að þeir þurfi að leita læknis og fá ofnæmislyf gegn bitinu. „Munnvatnið er blanda af lífvirkum efnum sem hindra storknun blóðsins, en prótínin í munnvatni moskítóflugunnar, Aedes aegypti, eru um 1.200,“ skrifar Gísli og vísar í rannsókn máli sínu til stuðnings. Heimildaskrá má sjá í sjálfri greininni handan hlekksins hér fyrir neðan.

„Blóðsjúgandi skordýr geta bitið oftar en einu sinni. Það ræðst meðal annars af því hvort þau hafa fengið nægju sína þegar þau voru flæmd frá hýslinum, og einnig leita þau uppi hýsla til að sjúga úr þegar frá líður frá fyrstu máltíð, til dæmis bitmý og moskítóflugur þegar þær þroska egg fyrir endurtekið varp. Þannig geta mörg blóðsjúgandi skordýr borið sýkla, veirur, sníkjudýr og fleiri óværur á milli manna og annarra dýra,“ segir svo í grein Gísla sem klykkir út með eftirfarandi fróðleik:

„Algengt er að viðbrögð við fyrsta biti sé öðruvísi en við endurtekin bit yfir lengri tíma. Margir mynda þol gagnvart bitum, en hjá öðrum gerist það ekki. Óþol fyrir bitum kemur venjulega eftir tvö eða fleiri ár.“

Grein Gísla á Vísindavefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert