Lífvörður Noregskonungs úr Hafnarfirði

Gabríel Gaui Guðrúnarson er einn 160 lífvarða Haraldar fimmta Noregskonungs …
Gabríel Gaui Guðrúnarson er einn 160 lífvarða Haraldar fimmta Noregskonungs og Sonju drottningar. Eftir stífa grunnþjálfun í norska hernum sótti hann um að komast í lífvarðasveitina en að því er ekki hlaupið. Gabríel ræddi feril sinn í norska hernum við Morgunblaðið. Ljósmynd/Aðsend

„Bíddu aðeins, ég ætla að fara inn í herbergi.“ Á þessum látlausu og hversdagslegu orðum hefst spjall við tvítugan Hafnfirðing, Gabríel Gauja Guðrúnarson, búsettan á Nøtterøy í Noregi, um hundrað kílómetra suður af Ósló.

Auðveldlega getum við Íslendingar gumað af því að hafa átt hirðskáld í þjónustu Noregskonunga, nægir þar að nefna Sighvat Þórðarson, skáld Ólafs helga Haraldssonar sem orti kynngimögnuð dróttkvæði um ferðir konungs og orrustur.

Eftir því sem Morgunblaðið komst næst þegar þetta viðtal birtist þar var því slegið fram að sagnaþjóðin stolta í norðri hefði aðeins átt einn son í lífvarðasveit Noregskonungs, Hans Majestet Kongens Garde, eins og hún kallast einfaldlega – væri það viðmælandinn hér. Þetta reyndist ekki rétt og höfðu tveir lesendur samband og bentu góðfúslega á að hvor um sig hefði þekkt Íslending í sveitinni á árum áður. Er þeirri leiðréttingu hér með komið á framfæri með þökkum.

Hvað um það, téður Gabríel Gaui fer engu að síður inn í herbergi á Nøtterøy til að komast undan skarkala heimilisins og segja alla sólarsöguna – og nú skulum við heyra af konungslífverðinum úr Hafnarfirði.

Gabríel mundar Heckler & Koch HK416-riffilinn þýska sem dregur allt …
Gabríel mundar Heckler & Koch HK416-riffilinn þýska sem dregur allt að 400 metra og skýtur 5,56 mm standard-NATO-kúlum. Ljósmynd/Aðsend

Tala íslensku á heimilinu

„Ég man nú ekki mikið eftir því þegar við fluttum hingað til Noregs, það var 2009 og ég náði að vera hálft ár í leikskóla hérna í Noregi,“ rifjar lífvörðurinn upp, en Gabríel er þrautþjálfaður hermaður í norska hernum, enginn sækir um í lífvarðasveitinni eftirsóttu nema hafa staðist grunnþjálfun norska hersins, „førstegangstjensten“, og jafnvel hún er ekki nóg til að fá inngöngu í þann 160 manna og kvenna hóp sem gætir lífs Noregskonungs og -drottningar. Vits er þörf þeim er víða ratar.

„Við tölum íslensku hér á heimilinu og þegar við erum á Íslandi. Við stóra systir mín förum alltaf einu sinni á ári til Íslands að heimsækja ömmu og afa og fjölskylduna,“ segir lífvörðurinn hafnfirski sem er léttur viðtals og býður af sér hinn besta þokka þrátt fyrir að bera dags daglega ábyrgð á því að Haraldur fimmti Noregskonungur og Sonja drottning geti um frjálst höfuð strokið í heimi sem gerist viðsjárverðari með hverjum deginum.

„Ég var farinn að hugsa um það strax í áttunda bekk að fara í herinn, mér fannst það bara „kúl“. Þegar ég var átján ára sótti ég um norskan ríkisborgararétt, þá hef ég alla möguleika til að öðlast þann frama sem ég vil í hernum,“ segir Gabríel frá. Skiljanlegt að átján ára gömlum íslenskum drengjum finnist „kúl“ að komast í her einhver staðar – umdeilt fyrirbæri en um leið góðan skóla sem býður heilmikla menntun. Allar líkur eru á að þú munir aldrei þurfa að drepa neinn og í hernum myndast vinabönd sem Gabríel kann virkilega að meta.

Hjartnæm mynd eins og merking hennar ber með sér. „Er …
Hjartnæm mynd eins og merking hennar ber með sér. „Er þetta kærastan þín sem er með þér þarna á myndinni, hvað heitir hún?“ spurði blaðamaður viss í sinni sök. „Nei, þetta er mamma!“ svaraði hermaðurinn ungi um hæl. Þarna er sem sagt Guðrún Þóra Guðjónsdóttir komin. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fékk herskyldu og ég held ég hefði nú fengið hana líka þótt ég hefði ekki verið norskur ríkisborgari,“ rifjar Hafnfirðingurinn upp, slíkt geti hreinlega farið eftir því hve lengi ungt fólk hafi verið búsett í Noregi.

Þeim líst ekkert endilega á þig

„Ég þurfti að mæta í viðtal og „sesjon“ sem kallað er, þar er metið hvort kandídat teljist hæfur til herskyldu. Þar var ég spurður hvað mig langaði að gera og maður er settur í ákveðið mat,“ útskýrir Gabríel. Niðurstaðan hafi verið tilboð um skólavist við „rekruttskolen“ sem sé grunndeild, eins konar „boot camp“-þjálfunarbúðir. „Það er svona eins og í bíómyndunum,“ segir Gabríel og brosið heyrist gegnum símann frá Nøtterøy til Porsgrunn í næsta fylki.

Hermannsefnin hefja grunnþjálfun og gangast undir sálræn og líkamleg próf. „Svo kom til okkar fulltrúi frá „drilltroppen“, sem er deild innan lífvarðasveitarinnar, og kynnti fyrir okkur starf lífvarðanna,“ rifjar Gabríel upp og leynir því illa að þetta var eitthvað sem honum leist vel á. Örlög Hafnfirðingsins unga voru ráðin og við getum þess hér með fyrir íslenska ættfræðiáhugamenn og sveitungana úr Hafnarfirðinum að Gabríel er sonur þeirra Guðrúnar Þóru Guðjónsdóttur og Gísla Þórs Guðjónssonar sem féll frá fyrir tveimur árum.

„Að lokum er okkur gert tilboð um að ganga í herinn og þiggja þá menntun sem honum fylgir. Eða ekki, þeim líst ekkert endilega á þig, þú veist það aldrei,“ segir hann kankvís. „Ég var settur í hóp sem bauðst grunnþjálfun en auk þess stæði okkur til boða frekari þjálfun, þá var búið að meta okkur þannig að við, sem þetta fengjum, værum tilbúin til þess og herinn gæti hugsað sér okkur í meira en bara grunnþjálfunina,“ segir Íslendingurinn frá fyrstu skrefunum.

Færð ekkert að tala við yfirmann strax

„Ég var sendur í Terningmoen-herbúðirnar og var þar í tvær vikur. Í byrjun var mest áhersla lögð á vopnaburð og mjög mikil á að taka byssurnar sundur og setja þær saman og endalaust að hlaða og skjóta,“ segir Gabríel og blaðamaður spyr hvort gamla húsgagnið, AG-3-riffillinn þunglamalegi, sé enn meginþjónustuvopn norska hersins.

Hér er enginn skátaflokkur á ferð. Gabríel er annar frá …
Hér er enginn skátaflokkur á ferð. Gabríel er annar frá vinstri í fremri röð og ber sænskframleiddu sprengjuvörpuna Carl Gustaf sem getur rofið brynvörn skriðdreka. Ljósmynd/Aðsend

„Nei, norski herinn hefur núna skipt yfir í Heckler & Koch HK416 og MP7,“ svarar viðmælandinn og kveður fyrrnefnda vopnið mjög áreiðanlegt með um 400 metra drægi. Grunnþjálfunin gangi enn fremur mikið út á allt sem hermenn þurfi að kunna í stríði, tæknina að geta farið um vígvöll án þess að verða fyrir skoti, slá upp tjaldbúðum og grafa skotgrafir. „Þetta snýst um að gera okkur að virkum hermönnum sem geta staðið fyrir sínu þegar á reynir,“ segir þessi tvítugi Hafnfirðingur án þess að blikna.

En hvernig er sjálf þjálfunin, hvernig eru yfirmennirnir gagnvart ykkur? Eru þetta bara öskur og agi?

„Þegar þú ert í grunnþjálfun er bara verið að öskra á þig en svo verður þetta miklu manneskjulegra þegar þú kemur lengra,“ svarar hermaðurinn. Nýliðar velji sér trúnaðarmann í upphafi og hann tali máli þeirra. „Þú færð ekkert að tala við yfirmenn strax, sveitin þín er með einn trúnaðarmann, herfylkið þitt [„bataljon“] er með annan og þannig heldur þetta áfram upp eftir,“ heldur hann áfram.

Langaði að komast í lífvörðinn

Þetta fyrirkomulag geri það að verkum að lendi hermaður í vandræðum með yfirmann geti hann krækt fram hjá honum og rætt við næsta mann fyrir ofan, til þess sé trúnaðarmannakerfið. „En þetta er auðvitað bara fólk, sumir yfirmennirnir eru rosalega fínir og opnir, aðrir eru það ekki,“ segir Gabríel. Eins og á hverjum öðrum vinnustað.

En nú ert þú í lífvarðasveit Noregskonungs og þú segir mér að í hana fari ekki hver sem er. Hvernig gekk þetta fyrir sig?

„Já,“ segir Gabríel hugsi og gerir örstutt hlé á máli sínu. Blaðamaður finnur í þögninni að þetta er eitthvað sem norskir hermenn segja ekki frá eða tala um á hverjum degi...og alls ekki á íslensku. Þótt Gabríel tali hana reiprennandi, hann er jafnvígur á bæði grannmálin.

Gabríel ásamt fimm ára gömlum yngri bróður sínum sem heilsar …
Gabríel ásamt fimm ára gömlum yngri bróður sínum sem heilsar upp á stóra bróður við störf. Sá stutti ku vera mikill aðdáandi rokksveitarinnar KISS sem lét af störfum í fyrra og lætur makkann vaxa. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar maður er búinn með grunnþjálfun fær maður að sækja um hvert maður vilji fara. Þú getur orðið venjulegur vörður, til dæmis í herbúðum, hermenn sjá um það. Mig langaði að komast í lífvörðinn,“ játar Gabríel og raddblærinn gefur til kynna að þar tali maður sem fundið hefur sína fjöl. Ungur maður frá Íslandi vildi verða lífvörður Noregskonungs og hann gegnir því starfi. Hann stendur þar sem enginn landi hans hefur staðið. Vilji er allt sem þarf – eða hvað?

Sérfræðingar í sérhæfðum hernaði

„Mér fannst þetta hljóma mest spennandi. Þetta sótti ég um og í janúar var ég fluttur yfir til Huseby-herbúðanna í Ósló,“ segir Gabríel og blaðamaður er í þúsundasta sinn minntur á óendanlega smæð veraldarinnar hafandi búið í Ullern í Ósló í fimm ár þar sem aðeins skóglendið mjóa Mærradalen skildi að heimili þess sem hér skrifar og Huseby-herbúðirnar.

Undirritaður skokkaði fram hjá aðalhliði búðanna allt covid-tímabilið eftirminnilega þegar allar líkamsræktarstöðvar voru lokaðar og veifaði til ungra hermanna og -kvenna sem stóðu vörð í hliðinu með hríðskotabyssur við öxl. Alltaf var veifað til baka enda báðar þjóðirnar í NATO. Vopnabræður, sjómenn og bændur frændþjóða heilsast.

„Þarna þurftum við að sýna fram á að við gætum gert allt sem stjórnendur ætluðust til af okkur, þarna tók alvaran við,“ segir Gabríel og bendir á að norskir hermenn geti kannski sótt um draumastöður og átt sér enn stærri drauma. Sumt sé bara sýnd veiði en ekki gefin.

Hermaðurinn hafnfirski er hagur á tré og sést hér við …
Hermaðurinn hafnfirski er hagur á tré og sést hér við smíðar á meðan þyngri skyldustörf knýja ekki dyra. Ljósmynd/Aðsend

„Þú þarft að vera heppinn til að komast í lífvörðinn en mörgum finnst það heldur ekki spennandi að standa endalaust fyrir framan konungshöllina í Ósló. En fólk sem hefur farið gegnum grunnþjálfun og farið þaðan í lífvörðinn er eftirsótt víðar í hernum. Yfirmaður minn útskýrði þetta fyrir mér, við erum sérfræðingar í vissum hlutum sem snúa að mjög sérhæfðum hernaði, til dæmis að komast af við mjög snúnar aðstæður,“ útskýrir Gabríel.

Lífvörður Noregskonungs annist enn fremur stóran hluta öryggisgæslu erlendra þjóðhöfðingja. „Við erum alltaf þeir fyrstu sem erlendir gestir sjá þegar þeir koma til landsins. Við veitum mjög markvissa þjónustu og við hljótum mjög margvíslega þjálfun, við erum þriðju hverja viku í þjálfun úti í skógi, það er allt annað en að standa vörð við höllina, við erum alltaf að læra eitthvað nýtt, við lærum að standa saman sem hópur hermanna og við lærum stöðugt á ný vopn.

Carl Gustaf – ekki bara konungur

Til dæmis æfir lítill hópur hermanna notkun LMG sem er „light machine gun“, það eru sjálfvirk beltahlaðin skotvopn sem er allt annað en að skjóta úr riffli með magasíni og við æfum notkun vopna sem geta rofið brynvörn skriðdreka, þó eru bara örfáir sem hljóta þjálfun á þau vopn,“ útskýrir Gabríel og á við sænsku sprengjuvörpuna sem ber nafnið Carl Gustaf. Herþjónusta lífvarðadeildarinnar gengur út á annað og meira en að standa með alvarlegt svipmót og riffil um öxl í varðskýli við höllina í Ósló.

Þeir eru líkast til fáir Íslendingarnir sem hleypt hafa af …
Þeir eru líkast til fáir Íslendingarnir sem hleypt hafa af 84 mm sprengjuvörpunni Carl Gustaf sem Saab Group framleiðir um þessar mundir, áður Bofors. Varpan er raunar flokkuð sem fallbyssa og ber hið formlega heiti Carl Gustaf recylfri kanon. Ljósmynd/Aðsend

„Við lærum á öll vopnakerfi sem notuð eru áður en við byrjum á vakt, við verðum að kunna að nota öll kerfin ef eitthvað kemur upp,“ segir Gabríel og svarar því aðspurður að skotfimin sé ekki eins vandasöm og margir telji. „Við æfum mikið skot á skífu í 50 metra fjarlægð í upphafi þjónustu en svo var einn dagur tekinn með 400 metra færi og þá miðað með punktsigti,“ segir hann af skotæfingu þar sem drægið með fjórtán tommu hlaupi þýska riffilsins HK416 var reynt til hins ýtrasta.

Heckler & Koch-rifflarnir þýsku eru hinir þægilegustu og er að sögn Gabríels varla finnandi fyrir bakslagi í öxl vegna haganlegs demparabúnaðar sem hemur höggið þegar hleypt er af. „Þetta er allt öðruvísi en að skjóta af haglabyssu,“ segir hermaðurinn hafnfirski sem hefur orðið yfirgripsmikla þekkingu á skotvopnum og beitingu þeirra.

Hittið þið lífverðirnir Harald konung einhvern tímann?

Gabríel telur upp nokkra fasta vaktstaði og verkefni og vissulega gerist það að konungshjónin kasti kveðju á lífverði sína. „Það er nú frekar sjaldan sem það gerist, við erum mest á verði fyrir utan girðinguna,“ segir hann og auðvitað er reglubókin þykk. „Við megum alveg tala við almenning, en við megum aldrei hefja samræðurnar,“ segir hann.

Lífið í norska hernum er ekki algjört meinlætalíf, hermenn gantast …
Lífið í norska hernum er ekki algjört meinlætalíf, hermenn gantast og hlæja eins og fólk á flestum öðrum vinnustöðum. Ljósmynd/Aðsend

Verða eins og systkini

Lífvarðasveitina segir hann mjög góðan skóla og mikinn stökkpall fyrir þá sem ætli sér að leggja fyrir sig hermennsku sem sitt lifibrauð. „Við lærum nánast tvöfalt á við þá sem sinna venjulegri herþjónustu,“ fær blaðamaður að vita og fræðir Gabríel hann auk þess aðspurður um að hægt sé að semja um að fá að fresta herskyldunni krefjist til dæmis annað nám þess.

„Ef ég væri í rafvirkjun til dæmis og ætti ár eftir af námi gæti ég fengið að fresta minni þjónustu þar til ég hef lokið sveinsprófi. Nokkrir af þeim sem byrjuðu á sama tíma og ég eru eldri en ég vegna þess að þeir fengu að bíða með grunnþjónustuna. En það er ekki auðvelt að komast undan herskyldu,“ segir Gabríel. Noregur væntir þess að hver maður geri skyldu sína, rétt eins og England í frægum orðum Nelsons flotaforingja.

Við förum á mannlegu nóturnar og Gabríel er inntur eftir þeim vinaböndum sem ungt fólk í herþjónustu hlýtur að einhverju leyti að bindast. Sannarlega segir hann þau til staðar. „Þetta er mjög skemmtilegt, maður býr svo náið með fólkinu að við verðum nánast eins og systkini,“ svarar Gabríel með innileika í raddblænum.

Nágranninn í næsta húsi? Norskir hermenn í hvunndagsfötum skera sig …
Nágranninn í næsta húsi? Norskir hermenn í hvunndagsfötum skera sig ekki úr á götu og eru ofurvenjulegt fólk eins og aðrir þegnar konungsríkisins Noregs. Ljósmynd/Aðsend

Það þjónustutímabil sem kallast „førstegangstjenesten“ sé allt að eitt ár frá fyrsta viðtali að telja. Ungmenni ganga saman inn í reynsluheim sem er þeim að mestu framandi. Vissulega þjappi þetta fólki saman. Sumir falli í inntökuprófunum sem Gabríel segir þó ekki sérstaklega krefjandi að efni. „Þetta er bara svo mikið efni á stuttum tíma og þú hefur mjög stuttan tíma í prófunum sem eru krossapróf. Stærðfræðin er kannski ekkert mikið þyngri en í fimmta bekk en þarna er verið að athuga hvort þú sért með á nótunum, þú getur ekki verið alveg úti að aka,“ segir hann og hlær við.

Forvarnastarf gegn einelti

Hann segir það ekki hafa verið hindrun að komast í herinn án norsks ríkisfangs en Hafnfirðingurinn er norskur ríkisborgari. „Þú þarft að hafa búið í Noregi um tíma og þú verður að tala málið. Ætlirðu þér að vera áfram í hernum og verða atvinnuhermaður þarftu hins vegar að hafa ríkisborgararétt,“ segir hann.

„Stærðfræðin er kannski ekkert mikið þyngri en í fimmta bekk …
„Stærðfræðin er kannski ekkert mikið þyngri en í fimmta bekk en þarna er verið að athuga hvort þú sért með á nótunum, þú getur ekki verið alveg úti að aka,“ segir Gabríel Gaui Guðrúnarson lífvörður Noregskonungs. Ljósmynd/Aðsend

Nú hefur kynferðisáreiti og einelti í norska hernum verið til umfjöllunar í fjölmiðlum landsins nýverið. Er þetta eitthvað sem hefur verið staðbundið og tilviljanakennt eða er um raunverulegt og viðvarandi vandamál að ræða?

Gabríel hugsar sig um stutta stund. „Ég hef persónulega ekki orðið mikið var við þess háttar,“ segir hann. „Ef til vill mætti flokka sumt undir einelti sem maður heyrir út undan sér, en það er auðvelt að segja það þegar maður er í félagsskap þar sem margir koma saman og eru þétt saman, fólk með ólíkan bakgrunn og frá ólíkum stöðum á landinu, þá verður núningur og þú þarft ekki nema eitt slæmt epli,“ svarar hann.

Herinn vinni markvisst gegn óæskilegri hegðun á borð við þá sem hér er til umræðu með forvarnastarfi, þar á meðal fyrirlestrum um efnið. „Við erum mjög opin um það sem hefur gerst í hernum og að þetta viljum við ekki hafa,“ bætir Gabríel við og segir aðspurður að það sem hann sjálfur hafi upplifað á eigin skinni á þessum vettvangi tengist stjórnendum sem séu ekki vel til þess fallnir að fara með mannaforráð.

Norðmenn jákvæðir í garð hersins

„Þegar fólk gefur skít í aðra sem stjórnendur er auðvelt að fá neikvæðari mynd af hernum og manni finnst það auðvitað ekki gott þegar maður upplifir hlutina þannig að fólk gefi skít í vinnuna sína,“ segir Íslendingurinn sem þekkir orðið vel til lífsins innan raða þeirra sem ætlað er að verja Noreg, norska hagsmuni og líf og limi þeirrar þjóðar sem landið byggir.

Aðspurður kveður Gabríel trúnaðarmannakerfið, sem komið var inn á fyrr í viðtalinu, virka sem skyldi. „Þeir taka slaginn fyrir okkur ef einhver er algjörlega í tómu rugli,“ segir hann og tekur sérstaklega fram að hann álíti norska herinn góðan vinnustað og eftirsóknarverðan.

Flestir Norðmenn séu jákvæðir í garð hers landsins  – það megi vel lesa út úr því viðmóti sem hermenn fái þegar þeir ganga einkennisklæddir um götur borga og bæja en slíkt er algeng sjón, svo sem þar sem stórar herbúðir. „Í Ósló eru reyndar sumir sem eru ekkert sérstaklega hrifnir af hernum, sérstaklega ekki lífvörðunum. Auðvitað er það fólk til sem vill hafa Noreg herlausan,“ segir Gabríel hispurslaust.

Og að allt öðru.

Þetta kókaínmál sem kom upp þarna í lífvarðasveit konungs, hvað var það eiginlega?

„Einhver saga fór á flakk um að lífverðir hefðu notað kókaín áður, það var ekkert sem sneri að mínu kompaníi [deild], ég var ekki kominn til starfa á þessum tíma. Núna hafa orðið talsverðar mannabreytingar, margir nýir eru komnir inn og aðrir hættir,“ svarar lífvörðurinn.

Lífvörðum konungs var þá hótað fíkniefnaprófum og töluvert fjallað um málið í norskum fjölmiðlum. „Við höfum ekki lent í neinum prófum en ef yfirmenn grunar að einhver sé að nota eitthvað taka þeir próf án þess að tilkynna um það fyrir fram. Í kringum hátíðir, eins og þjóðhátíðina 17. maí, og aðra viðburði þar sem kannski mætti ætla að fólk almennt væri að nota eitthvað, mætti vel búast við að fíkniefnapróf yrðu framkvæmd,“ segir Gabríel, og raunar gildir sú regla á mörgum norskum vinnustöðum þótt starfsfólk þar gangi ekki um með skotvopn í vinnunni.

Frá heimsókn Friðriks tíunda Danakonungs og Maríu drottningar fyrr á …
Frá heimsókn Friðriks tíunda Danakonungs og Maríu drottningar fyrr á árinu. Ljósmynd/Aðsend

Mælir með herþjónustu á Íslandi

Lokaspurning þessa fróðlega viðtals við Gabríel Gauja Guðrúnarson er einfaldlega hvort hann telji að Ísland ætti að eiga sér her.

Þar með hefst lengsta þögn viðtalsins. Gabríel íhugar málið. Er sanngjarnt að spyrja íslenskan hermann erlendis slíkrar samviskuspurningar? Blaðamaður er ekki viss, en forvitnin verður allri sanngirni yfirsterkari.

„Ég mæli alla vega með herþjónustu fyrir Íslendinga hérna í Noregi og Norðmenn almennt. Maður lærir svo mikið með því að gegna herskyldu í eitt ár og þetta er kunnátta sem maður býr að út lífið,“ segir hermaðurinn og færir sig aðeins upp á skaftið – raunar í sömu átt og hugmyndir sem ræddar voru á Íslandi í fyrra.

„Það væri ekkert að því að hafa eitthvað minni háttar, eitthvað takmarkað, takmarkaða herskyldu,“ slær Gabríel fram, „með herþjónustu er hægt að kenna svo stórum hópum svo mikið. Þetta hefur ekki bara með hermennsku og stríð að gera. Norski konungslífvörðurinn hefur til dæmis verið notaður sem björgunarsveit þegar fólk týnist í óbyggðum.

Við erum til staðar og við getum verið úti mun lengur en aðrir, við erum þaulvön því að vera úti nokkra daga í einu og geta bjargað okkur við ýmsar aðstæður,“ segir Gabríel Gaui Guðrúnarson að lokum, lífvörður Haraldar fimmta Noregskonungs og þrautþjálfaður hermaður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert