Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir voru kallaðar út rétt fyrir miðnætti til að aðstoða mann sem var á hreindýraveiðum í Sandvík á Austfjörðum.
Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Jón Þór segir manninn hafa fundið verk fyrir brjóstið og ekki treyst sér til þess að ganga lengra.
Þyrlan hafi komið um klukkan 2.30 í nótt og flutt manninn á sjúkrahúsið í Neskaupstað. Hann segir að um klukkan sex í morgun hafi aðgerðum verið lokið.
Björgunarsveitirnar Brimrún sem er á Eskifirði, Ársól á Reyðarfirði og Gerpir á Neskaupstað tóku þátt í aðgerðunum í Sandvík sem er á skaganum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.
„Þetta er svæði sem ekki er auðvelt að koma vélknúnum ökutækjum að. Þetta er frekar bratt lendi og menn mátu það sem svo að það væri öruggara að hífa manninn upp um borð í þyrluna,” segir Jón Þór að lokum.