Þriggja mánaða LARP-námskeið fyrir ungmenni hjá Nexus Noobs hófst um helgina og er hluti af sálfræðirannsókn sem skoðar félagstengsl, sjálfstyrkingu og fleiri þroskatengda þætti hjá ungum þátttakendum.
Soffía Elín Sigurðardóttir sálfræðingur stendur að námskeiðinu, sem er ætlað 10 til 16 ára og felur í sér hlutverkaleiki fyrir ungmenni sem hafa áhuga á ævintýrum og borðspilum á borð við Dreka og dýflissur (e. dungeons and dragons).
„Ég var með unglinga hjá mér í viðtölum sem voru bara með svona „nördaáhugamál“ og mér fannst krakkana vanta félagsskap frekar en meðferð. Flottir krakkar, bara einmana af því þessi áhugamál voru ekki vinsæl,“ segir Soffía innt eftir því hvernig hugmyndin að námskeiðinu kom til.
Hún segir þó „nördaáhugamál“ á borð við hlutverkaspil og LARP hafa tekið mikið stökk í vinsældum á undanförnum árum og séu orðin mun sýnilegri og samþykktari. Í dag sé Drekar og dýflissur til að mynda kennt í nánast öllum félagsmiðstöðvum.
„Það var rosa lítill skilningur fyrir svona tíu árum fyrir því hvað þetta er mikil snilld.“
LARP stendur fyrir Live action role-playing game eða kvikspuna þar sem þátttakendur láta ævintýraheiminn í t.d. Drekum og dýflissum verða að veruleika.
Soffía hefur starfrækt krakkaklúbbinn Nexus Noobs síðan 2015 sem haldi úti ýmsum námskeiðum. Starfið hafa vaxið töluvert á síðustu árum til að mynda með tilkomu LARP námskeiða. LARP-sérfræðingurinn Helgi Thor Steingrímson annist námskeiðið með Soffíu og leggi mikinn metnað í að skipuleggja ævintýrin fyrir krakkana.
„Mér fannst bara svo gríðarlega mikil tækifæri í að vinna með sálfræðiíhlutun í LARP-inu,“ segir Soffía.
LARP krefst mikils ímyndunarafls, undirbúnings og hæfni til þess að leysa úr alls kyns þrautum og takast á við mótlæti, að sögn Soffíu og er sömuleiðis góð leið til að stíga út fyrir þægindahringinn og kynnast fólki með sama áhugamál.
Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á kosti þess að LARP-a, en því svipar oft til meðferðartækni sem notuð er til að bæta félagsfærni.
Segir Soffía LARP frábæra leið til að þroskast og læra að takast á við áskoranir og mótlæti í gegnum hlutverkaspil, sem ungmennin geti síðar fært yfir á upplifanir í raunheimum. Leikurinn sé því frábær leið til að læra á virðingu, mörk, samþykki og félagshegðun.
„Í LARP-inu er bara karma. Ef einhver hegðar sér illa þá eru afleiðingar.“
Krakkarnir búi til eigin búning og karakter og geri síðan leikinn að sínum eigin. Sumir séu með leikræna hæfileika á meðan aðrir séu einstaklega áhugasamir um söguþráðinn. Í gegnum spuna og leik leysi þau þrautir og geti jafnvel fundið leikpeninga til að kaupa sér hluti sem gagnist þeim í þrautunum.
„Þetta námskeið er náttúrulega mikið út fyrir þægindarammann hjá mörgum. Þau eru á hlaupum um helgar í 5-6 tíma á dag í alls konar veðrum og eru að leysa þrautir,“ segir Soffía.
„Þau fara í karakterinn og leika, skylmast, flýja og fara í bandalög og gera í raun allt eins og í Drekar og dýflissur nema í alvörunni.“
Alls konar krakkar hafi áhuga á hlutverkaleikjum og ævintýrum og sé það í raun eina forsendan fyrir þátttöku á námskeiðinu. Kveðst Soffía vongóð um að starfið haldi áfram að vaxa og að einn daginn geti Nexus Noobs haldið úti LARP-námskeiðum allan ársins hring, ekki aðeins hluta árs.
Fréttin var uppfærð 19. september:
Áður sagði að Nexus Noobs væri LARP námskeið. Það er ekki rétt þar sem Nexus Noobs er klúbbur sem heldur úti námskeiðinu ásamt öðrum námskeiðum.