Sá sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás, sem dyraverðir á skemmtistað eru grunaðir um að hafa framið, var fluttur á bráðamóttöku Landspítala. Er hinn sami þó ekki í lífshættu.
Þetta segir Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Aðspurð segir hún að engum vopnum hafi verið beitt og að hún geti ekki sagt hjá hvaða skemmtistað dyraverðirnir voru að störfum hjá.
Í dagbók lögreglu í morgun kom fram að dyraverðir á skemmtistað í miðborginni hafi verið handteknir í nótt grunaðir um alvarlega líkamsárás.
Þóra sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að dyraverðirnir yrðu yfirheyrðir en að margir hefðu orðið vitni að líkamsárásinni.